135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[17:59]
Hlusta

Flm. (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er feginn að heyra það ef hv. þingmanni hefur orðið á mismæli þegar hann sagði að með þessu frumvarpi væri verið að innleiða mismunun á Alþingi í starfskjörum. Það var það sem ég greip hjá hv. þingmanni að hann segði (Gripið fram í.) og væri með því að láta að því liggja að með starfskjörum væntanlegra aðstoðarmanna, hvort sem það eru aðstoðarmenn formanna stjórnarandstöðuflokkanna eða annarra þingmanna, sé verið að raska einhverju jafnvægi. Ég tel að svo sé ekki og vona að það sé ekki meiningin hjá þingmanninum.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um það sem kom fram hjá hv. þingmanni. Það hefur legið fyrir að það eru deildar meiningar um þetta og sérstaklega af hálfu hv. þingmanna Vinstri grænna en ég met auðvitað skoðanir þeirra, þær liggja fyrir. Ég mun að sjálfsögðu leggja mig fram eins og ég hef gert við það að ná sem mestri sátt milli þingmanna í þinginu með þær breytingar sem við erum að gera og líka hvað varðar starfskjör aðstoðarmanna þingmanna og eins um þær breytingar sem við ætlum að gera á nefndasviðinu. Það hefur mikla þýðingu. (Gripið fram í.) Þar munu væntanlega fá góða þjónustu bæði þingmenn sem að jafnaði eru í því kjördæmi sem við erum stödd í núna og hinir sem þurfa að fara yfir miklu stærra landsvæði en þetta ágæta höfuðborgarsvæði sem auðvitað nýtur þess að við erum öll að vinna þar upp á hvern einasta dag.