135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[18:02]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. forseti Alþingis talaði um þingmenn sem treystu sér ekki eða færu aldrei austur fyrir Elliðaár. Ég velti fyrir mér hvort hann hafi verið að vega þar að hv. þm. Ögmundi Jónassyni sem býr í Vesturbæ Reykjavíkur. Hæstv. forseta til upplýsingar teygir Reykjavíkurkjördæmi sig nú þegar langt austur fyrir Elliðaár og ég er þannig staðsettur að ég verð á hverjum einasta degi að fara austur fyrir Elliðaár þannig að ég veit að forseti hefur ekki átt við mig. En það er spurning hvort hann vill miða við þessa séraðstöðu sem hér er verið að leggja til við Elliðaárnar og þá náttúrlega er alveg ljóst að það mundi annað heyra til.

Hvað varðar aðstöðu og hvað þingmenn þurfa að gera þá ræður þar, eins og í svo mörgu í lífinu, bæði framboð og eftirspurn. Í sumum tilvikum er meira framboð eða meiri eftirspurn eftir einum en öðrum og þar koma ferkílómetrar málinu ekkert við. Ég get tekið undir með hv. þm. Ögmundi Jónassyni að starf þingmannsins meðan þingtíminn stendur er þannig að það er allur dagurinn sem er um að ræða og mun meira en allur starfsdagurinn. Það liggur líka fyrir, hæstv. forseti, að um 75% kjósenda þjóðarinnar eru staðsettir og búsettir tiltölulega nálægt höfuðborgarsvæðinu. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr er það þannig. En það sem ég vil spyrja hæstv. forseta um er þetta miðað við orð hans áðan: Munu allir þingmenn hafa sömu starfskjör að hans mati verði þetta frumvarp að lögum?