135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

rannsóknir og sjálfbær nýting jarðhitasvæða.

13. mál
[18:24]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég vil geta þess í upphafi tölu minnar að ég er í öllum meginatriðum sammála því sem kom fram í máli hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur og ég er henni þakklátur fyrir þá umhyggju sem hún hefur fyrir náttúru Íslands og jarðhitasvæðunum. Þau varnaðarorð sem hv. þingmaður hafði hér uppi voru öll á rökum reist og ég deili þeim með henni.

Ég er ósammála því sem hv. þingmaður sagði áðan um að rannsóknarleyfi væru í fyrsta lagi ávísun á sjálfvirka framtíðarnýtingu svæðisins og í öðru lagi er ég líka ósammála því sem hv. þingmaður sagði að rannsóknarleyfi leiddu í reynd sjálfkrafa til þess að svæðinu væri raskað þannig að ekki væri hægt að koma því í upprunalegt horf. Ég vil leggja á það alveg skýra áherslu að leyfi til rannsókna felur ekki í sér neina undanþágu frá gildandi lögum. Það felur ekki í sér undanþágu frá lögum sem banna akstur utan vega. Það felur ekki í sér neinar heimildir til að leggja vegi eða reisa mannvirki án tilskilinna leyfa. Það felur ekki í sér neina undanþágu frá lögum og reglum um skipulag og byggingar. Það verður að vera alveg skýrt. Ef vanhöld eru á því þá standa hinir opinberu eftirlitsaðilar sig augljóslega ekki í stykkinu.

Þegar iðnaðarráðuneytið gefur út rannsóknarleyfi lögum samkvæmt verða þeir sem hyggjast nýta leyfið að fylgja bókstaflega ákvæðum þeirra laga sem gilda um umgengni við náttúruna. Þar eru engar undanþágur og engin frávik frá því.

Hv. þingmaður nefndi að ég hefði sem iðnaðarráðherra á liðnu sumri afturkallað öll þau rannsóknarleyfi sem fyrir lágu í ráðuneytinu þegar ég kom þangað. Það var samkvæmt stefnu ríkisstjórnarinnar. Hv. þingmaður getur verið algerlega ósammála um stefnu ríkisstjórnarinnar í ýmsum málum. Við tókum hins vegar ekki við fyrr en á tilteknum degi. Það var gert í krafti stefnuyfirlýsingar þar sem Samfylkingin náði þeim árangri, og reyndar var líka fullur vilji til þess af hálfu Sjálfstæðisflokksins, að menn færu í þessa rammaáætlun með þeim hætti sem margoft hefur verið lýst. Sömuleiðis var ákveðið í krafti þeirra ákvæða sem koma fram í stefnuyfirlýsingunni að ekki yrði ráðist í neinar rannsóknir á óröskuðum svæðum, engin frekari slík leyfi gefin út og engum rannsóknarleyfum breytt í nýtingarleyfi meðan á því stæði. Þess vegna afturkallaði ég þessi leyfi, hafnaði öllum þeim leyfum sem fyrir lágu. Hv. þingmaður skammast eðlilega yfir því af því að hún hefur þau viðhorf að ekki hefði átt að fara í Gjástykki. Menn geta fært mörg rök fyrir því. Ég segi það bara hreinskilnislega að samkomulag ríkisstjórnarinnar náði ekki til þess. Þess vegna hafnaði ég þeim óskum sem fram komu hjá hv. þingmönnum Vinstri grænna strax á öðrum degi sumarþings á síðasta ári, að afturkalla það leyfi. Ég hafði einfaldlega ekki málefnalegar forsendur til þess. Leyfið var komið í hendur þessara tilteknu aðila sem það fengu og ég taldi ekki að hægt væri við þær aðstæður að afturkalla það. Um það getur hv. þingmaður verið mér algerlega ósammála ef hún vill.

Hv. þingmaður rakti í skýru máli það sem hún taldi vera ákaflega ábótavant í umgengni við jarðhitasvæðin. Ég er henni algerlega sammála um margt. Ég tel að það sé í mörgum atriðum til vansa og það er alveg rétt sem hún segir að umgengni um þau svæði sem blasa við augum ákaflega margra, t.d. á fjölförnum vegum í nágrenni höfuðborgarinnar, er þannig að hún er ekki til að auka hróður þeirra sem að þeim standa. Það er alveg rétt sem hún segir að setja þarf reglur með einhverjum hætti um hvernig menn umgangast þessi jarðhitasvæði, framkvæmdir og annað slíkt.

Ég hef áður tekið þátt í umræðum úr þessum stóli við hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar, Vinstri grænna ef ég man rétt, í tilefni af frumvarpinu um upprunaábyrgð á raforku sem hv. þingmaður nefndi áðan í framsögu sinni. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði, og eins og ég sagði í þeirri umræðu, að nauðsynlegt er að það liggi alveg skýrt fyrir með hvaða hætti menn skilgreina endurnýjanlega orku. Það eru til endurnýjanlegar orkulindir sem hægt er að vinna með hætti sem ekki er hægt að kalla sjálfbæran. Ég er hins vegar ekki alveg sammála því sem hv. þingmaður sagði áðan um þá aðferð sem menn nota uppi í Henglafjöllum, þ.e. að nýta á svæði og hvíla það síðan. Ef við lyftum okkur yfir tímann og horfum fram í hann í nokkuð stórum flákum þá er markmiðið með þessari aðferð — án þess að ég hafi skoðað hana sérstaklega — væntanlega það að eftir tiltekinn tíma sé vatnsmassinn í geimnum búinn að endurnýja sig með þeim hætti að varla er hægt að fella vafa yfir þá staðhæfingu að um sjálfbæra nýtingu sé að ræða. Það kann hins vegar að vera rétt hjá hv. þingmanni að þetta sé ekki æskilegasta leiðin til að ná fram sjálfbærni um nýtingu. Ekki skal ég um það segja.

Ég er tæknikrati. Ég treysti sérfræðingum og það er þess vegna sem ég hef í verki tekið undir þær ábendingar sem komið hafa fram hérna. Ég er þegar búinn að koma skriflega þrenns konar óskum til stýrihóps rammaáætlunarinnar. Ég gerði það á liðnu hausti. Ég bað í fyrsta lagi um að hópurinn tæki sérstakt tillit til reglna sem gilda um menningar- og náttúruminjar sem falla undir heimsminjaskrá vegna þeirrar auknu áherslu sem þessi ríkisstjórn hefur sett á verndun menningar- og náttúruminja. Ég sit sjálfur í heimsminjaskrá sem hefur það að markmiði sínu að koma ákveðnum íslenskum svæðum á heimsminjaskrá. Reyndar tók ég þátt í einu slíku verkefni sem hlaut jákvæða afgreiðslu. Í fyrsta lagi hef ég beint þessum tilmælum til verkefnisstjórnarinnar þótt það falli ekki beinlínis að því máli sem við erum að ræða.

Í öðru lagi hef ég, með hliðsjón af þeirri áherslu sem kemur fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar hvað varðar verndargildi og orkunýtingu háhitasvæðanna, beint því til verkefnastjórnarinnar að hún semji í samráði við sérfræðinga á þessu sviði drög að reglum um framkvæmdir á háhitasvæðum. Í þeim reglum, sem verða þá lagðar upp af þeim sem best þekkja til á þessu sviði, á að tryggja að umhverfisáhrif við framkvæmdir á háhitasvæðum verði lágmarkaðar. Sömuleiðis held ég í ljósi þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað innan Orkustofnunar og milli fyrrverandi orkustofnunarsérfræðinga, þar á meðal Sveinbjörns Björnssonar fyrrverandi rektors Háskóla Íslands, að það sé nauðsynlegt að menn skoði rækilega með hvaða hætti jarðhitinn er nýttur. Það þarf sérstaklega að skoða þær forsendur sem liggja til grundvallar því sem menn kalla ágenga nýtingu jarðhitasvæða. M.a. þess vegna hef ég beint því skriflega til verkefnisstjórnarinnar í þriðja lagi að hún geri jafnframt drög að reglum sem hafi það að markmiði að tryggja sjálfbæra nýtingu jarðvarma. Í þeim reglum er gert ráð fyrir að skilgreint sé með hvaða hætti hægt er að nota hugtakið sjálfbærni yfir nýtingu jarðhita og sömuleiðis með hvaða hætti menn geta beitt því sem kalla má ágenga nýtingu jarðhitasvæðanna.

Ég hef sagt það áður í þessum ræðustóli í umræðum sem ég átti við hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að ég hyggst fara eftir þeim reglum sem sérfræðingarnir leggja til. Þá gæti hv. þingmaður hugsanlega velt því upp hvort ekki sé of seint í þann rass gripið því að nú þegar liggja fyrir virkjunarleyfi, bæði í Henglafjöllum og svo víðs vegar um Reykjanes. Því er til að svara að það er alveg skýlaust að iðnaðarráðherra getur breytt skilyrðum sem eru forsenda virkjunarleyfis. (Gripið fram í.) Með öðrum orðum, ef í ljós kemur að nýting jarðhitasvæðis er ekki í samræmi við það sem talið er æskilegt þá getur hann breytt þeim forsendum. Ég veit ekki hvort forverar mínir hafa einhverju sinni beitt þessum lagaheimildum en það er alveg ljóst að í þeim efnum mun ég láta náttúruna njóta vafans.