135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

rannsóknir og sjálfbær nýting jarðhitasvæða.

13. mál
[18:43]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Þó ég sé sammála mörgu sem hv. þingmaður sagði þá finnst mér samt sem henni hafi aðeins skrikað fótur á hinu rökfræðilega svelli. Eins og hv. þingmaður lýsti nýtingaráformum á Hellisheiði með 30 ára nýtingartíma og síðan 30 ára hléi og þá hugsanlega 30 ára nýtingartíma þar á eftir þá fæ ég ekki betur séð en að þau nýtingaráform falli algerlega undir þá skilgreiningu sem hv. þingmaður hafði eftir Guðna Axelssyni prófessor á hugtakinu sjálfbærri nýtingu. Ég fæ ekki betur séð en að hv. þingmaður hafi sagt það og hún vísaði til þess að það þýddi í reynd að á 100–300 ára tímabili yrði svæðið í sama ásigkomulagi og áður. Ég get að vísu ekki fullyrt að hitaleiðni í bergi og annað slíkt verði með þeim hætti að hitaforðinn væri hinn sami. Það fer væntanlega eftir leiðni og hitanum undir svæðinu. En miðað við skilgreiningu Guðna Axelssonar þá fæ ég ekki — bara sem ég hugsa hér standandi — betur séð en að þetta tvennt fari saman.

Hv. þingmaður sagði síðan áðan í fyrri ræðu sinni þegar hún vísaði til greinar um að menn væru að fleyta rjómann ofan af þessum góðu auðlindum að sóunin fælist í því að menn nýttu ekki nema 7–13% af orkunni og það er það sem gerist þegar menn nýta þessi svæði eingöngu til raforkuframleiðslu. En hún sagði líka í fyrri ræðu sinni að ef vatninu verði skilað ofan í geyminn þá gegndi öðru máli. Ég veit ekki betur en að það sé nákvæmlega það sem menn eru með áform um að gera bæði á Hellisheiði og líka á Suðurnesjum. Þannig að minnsta kosti hafa mér verið kynnt þau mál. Hugsanlegt er að einhver frávik séu frá því.

Ég hugsa að hv. þingmaður hafi rétt fyrir sér í að menn hafi kannski farið heldur hratt í þessari nýtingu og ekki byggt á nægilega þróuðum skilgreiningum og hugtökum til dæmis um sjálfbæra nýtingu og hvers konar ágengni er leyfileg. Það hins vegar á sér væntanlega þær sögulegu skýringar að svo skammt er liðið frá því að menn hófu orkuframleiðslu með þessum hætti.

Hv. þingmaður gat þess að það hefði í reynd hafist með Nesjavallavirkjun. Ég taldi alltaf að það hefði hafist fyrr, að menn hefðu byrjað með tveggja megavatta virkjun í Bjarnarflagi sama árið, held ég, og Neil Armstrong steig fyrstur manna fæti á tunglið. Það var með vissum hætti okkar tunglganga að hefja þessa nýtingu á orku. Við verðum auðvitað að gera það með varkárni og aðgæslu.

Ég hef verið þeirrar skoðunar — en hv. þingmaður má reyna að sannfæra mig um annað með rökum sínum — að það væri í lagi að framleiða orku með þessum hætti jafnvel þó það leiddi bara til 10% nýtingar eins og málum er háttað á orkunni svo fremi sem vatninu væri skilað aftur niður í geyminn. Ég tek hins vegar alveg undir með henni að það væri mjög æskilegt ef hægt væri að nýta hinn mikla orkuforða sem er að finna í vatninu þegar búið er að nýta það til rafmagnsframleiðslu til einhvers konar iðnaðar. Og það er okkar ögrun. Það er okkar hlutverk að reyna að finna leiðir til að nýta þetta betur. Sumir hafa vísað til framtíðar þar sem menn nýta þessa orku til dæmis til að framleiða með jákvæðum hætti sem sæmir umhverfinu lífeldsneyti með þörungaræktun. Ég er sannfærður um að í því felist margvíslegir möguleikar. Aðrir hafa viljað og eru að beita þessu í miklu smærri mæli til að framleiða þörunga sem notaðir eru til ýmiss konar snyrtivöruframleiðslu. Það er alla vega verið að skapa verðmæti úr því með þeim hætti. Það eru örugglega margar leiðir sem munu opnast í framtíðinni til þess að nýta þetta. Á þeim tíma sem líður þangað til að því kemur verðum við að gæta þess að ganga sem best um auðlindina. En ég tók eftir því að þegar hv. þingmaður vísaði til Sveinbjörns Björnssonar og vangaveltna og ágætra ritgerða hans um þetta efni þá talar hann um að skilja svæðin eftir, og á þá væntanlega við varmaforða svæðisins, í þokkalegu ásigkomulagi þegar til mjög langs tíma er litið. Ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður eigi þar við kannski þúsund ár eða eitthvað svoleiðis. Ég veit það ekki. En ég ítreka að ég er sammála meginviðhorfunum og það sem meira er, ég hef gripið til ráðstafana. Það sem hv. þingmaður er að leggja til að verði gert með þessari þingsályktunartillögu sinni, sem er allra góðra gjalda verð, hef ég þegar sett í gang með sérstökum óskum um að stýrihópur rammaáætlunar fái sérfræðinga til að útfæra hluti (Forseti hringir.) sem eru mjög áþekkir ef ekki hafandi nákvæmlega sama markmið og hv. þingmaður er að leggja til.