135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

rannsóknir og sjálfbær nýting jarðhitasvæða.

13. mál
[18:49]
Hlusta

Flm. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Herra forseti. Mig langar til að halda þessari orðræðu hér örlítið áfram.

Það er því miður svo að ekki er hægt að tryggja það fortakslaust að háhitavatninu sem dælt er upp við raforkuframleiðsluna sé hægt að skila ofan í sama jarðhitageyminn aftur. Ef lesnar eru grannt matsskýrslur Bitru- og Hverahlíðarvirkjana, sem voru kynntar í haust sem leið, kemur fram að menn geta alls ekki staðfest að þeir séu að skila vatninu niður. Það veldur nokkrum áhyggjum, m.a. vegna þess að það gæti farið aðra leið, það gæti ratað í neysluvatnið, í grunnvatnið, og það gæti valdið hitamengun eins og þegar er þekkt í Þingvallavatni og ég er viss um að hæstv. ráðherra þekkir. Það er því margt að varast í þessu.

Um ágengu nýtinguna sem fyrirhuguð er uppi á Hellisheiði vil ég vitna til orða Guðna Axelssonar, sem skilgreinir ásamt fleiri sérfræðingum Orkustofnunar sjálfbæra nýtingu á þann veg að svæðið haldi jafnri, góðri vinnslu í 100–300 ár. Hann segir að ágengri nýtingu fylgi einnig meiri áhætta og vitnar þar til hverasvæðisins í Kaliforníu þar sem menn voru að framleiða og virkja fyrir 2.000 megavött en svæðið hrundi og menn ná ekki helmingnum þar núna.

Það er spurning hvort við eigum að taka þessa áhættu og til hvers. Ég rakti í máli mínu áðan að ef hæstv. ráðherra ætlar ekki að hleypa hér inn þremur álverum, sem eru á færibandinu upp í ráðuneyti til hans, þá er raforkuframleiðsla á Hellisheiði og suður af Reykjanesi aðallega til þess að framleiða inn á almenna kerfið, til þess að draga úr kaupum frá Landsvirkjun, sem þýðir að fyrir hvert megavatt sem framleitt er á Hellisheiði og á Reykjanesinu er óseld orka á móti frá Landsvirkjun vegna þess að vöxtur almenna markaðarins er ekki meiri en svo. Meðan þessi virkjunarmáti er ódýrari en heildsöluverðið frá Landsvirkjun keyra menn þessa stefnu áfram og ég tel hana mjög varhugaverða. Ég sé ekki að það sé boðlegt að vinna þessi svæði með þessum hætti og ég fordæmi fyrir mitt leyti þá afstöðu sem ég vitnaði hér til áðan: Af því að við eigum um 30 háhitasvæði á Íslandi, hvað er þá að því að hafa tekið dálítið hressilega á einu þeirra til að komast að því hvar möguleikarnir liggja? (Gripið fram í.) Þetta er sérfræðingur Orkuveitu Reykjavíkur, jarðeðlisfræðingurinn Grímur Björnsson, í viðtali við Viðskiptablaðið 20. nóvember 2007, þar sem hann er að lýsa því (Gripið fram í.) hvernig menn geta unnið þessi svæði sem dýpst og sem hraðast. Þetta er dæmigerð lýsing á þeirri græðgisvæðingu og því orkufylleríi sem hefur verið í þessum geira raforkufyrirtækjanna á undanförnum missirum.

En ég ítreka að ég fagna því að ráðherrann ætlar að láta setja reglur. Ég vænti þess að við fáum í iðnaðarnefnd tækifæri til að fjalla um þessa þingsályktunartillögu og þá vonandi tillögur að reglum sem hæstv. ráðherra nefndi hér áðan.