135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

rannsóknir og sjálfbær nýting jarðhitasvæða.

13. mál
[18:59]
Hlusta

Flm. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er ljóst að jarðhitanýtingin hér frá upphafi og alveg fram til þessa dags hefur að mestu leyti verið þannig að ekki hefur verið gengið óhóflega á þessi svæði öðruvísi en þannig að þau gætu þá jafnað sig aftur. Ég nefni Mosfellsbæ og ég nefni Laugarnesið. Þar lærðu menn af reynslunni og fara í þrepanýtingu, auka þetta skref fyrir skref til þess, eins og ráðherra nefndi hér, að fá tíföldun út úr svæðinu eins og gerist í Laugarnesinu.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji verjanlegt að fórna einu eða tveimur af þessum dýrmætu háhitasvæðum okkar til tilrauna í því hversu langt megi ganga. Það er alveg ljóst að bæði Landsvirkjun, sem er fyrir norðan og í Kröflu með jarðvarmavirkjun, Hitaveita Suðurnesja og Orkuveita Reykjavíkur fram til þessa tíma hafa kappkostað að ganga ekki of nærri svæðunum. Nú allt í einu hafa þeir séð ljósið: Keyrum þau í botn, blóðmjólkum þau og lokum þeim svo smástund. Og eins og þarna var vitnað til: Við eigum svo mörg háhitasvæði, er ekki allt í lagi að prófa eitt? Mig langar til þess að vita hver afstaða ráðherrans er til þessa viðhorfs.