135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

rannsóknir og sjálfbær nýting jarðhitasvæða.

13. mál
[19:02]
Hlusta

Flm. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að lýsa því að ég hef orðið fyrir nokkrum vonbrigðum með þessi síðustu orðaskipti okkar hæstv. ráðherra hér í dag því að mér finnst hann of hallur undir hugmyndirnar sem eru um ágenga nýtingu á jarðhitasvæðunum. Mér finnst það ekki vera í þeim anda sem Orkustofnun og helstu sérfræðingar hennar hingað til, og þar með taldir Guðni Axelsson og Sveinbjörn Björnsson, hafa lagt til skilgreiningar á. Mér finnst það ekki vera í þeim anda að horfa á nýtingu til 30 ára eingöngu. Menn vita vel að afskriftartími þessara virkjana er 30 ár. Það er kannski það sem menn eru að hugsa um og svo geta þeir bara farið, eða hvað?

En þannig er ekki hægt að hugsa sér sjálfbæra nýtingu og við skulum muna að við þurfum líka að horfa á það hvað er endurnýjanlegt í þessu tilliti vegna þess að þegar við erum að tala um endurnýjanlega orku þá erum við að tala um eðli orkunnar. En þegar við erum að tala um sjálfbæra nýtingu aftur á móti þá erum við að tala um hvernig hún er unnin.

Það er alveg ljóst í mínum huga að ágeng nýting getur valdið miklum landsspjöllum. Hún getur valdið jarðfalli og því að opnist nýir hverir eins og hefur gerst á Nýja Sjálandi og í Japan. En hún getur líka valdið kólnun á svæðinu og eins og ég nefndi áðan. Hún getur valdið grunnvatnsmengun og hitamengun á svæðum þar sem við viljum ekki sjá hana. Það er því margt að varast þarna og ég vona að ráðherrann taki ekki allt of vel í hugmyndir um ágenga nýtingu á Hellisheiðinni.