135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

skattamál tengd byggingu Kárahnjúkavirkjunar.

[15:09]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég hlýt að sönnu að fagna því, sennilega í sjötta skipti sem ég tek þetta mál upp, að fjármálaráðuneytið gefst nú loksins upp og játar mistök sín og viðurkennir að svörin sem mér voru gefin ár eftir ár á þingi voru röng. Þessi framkvæmd var ekki í lagi og ekki var hugað að því að hafa þannig lagaumgjörð um þetta að málið gengi upp

Fjármálaráðuneytið á engan kost annan en að virða dóm Hæstaréttar og endurgreiða Impregilo hinar ofteknu greiðslur frá þeim. Það er undarleg hagsmunagæsla, herra forseti, að velja það frekar að borga 1 millj. kr. á dag í dráttarvexti en að greiða a.m.k. þannig inn á skuldina að hún lækki og út af standi þá eitthvað sem ágreiningur er um. Ég efast reyndar um að fjármálaráðuneytið eigi nokkurn annan kost en að gera upp við Impregilo. Síðan er það seinni tíma mál hvort hæstv. fjármálaráðherra vill reyna að fara til Portúgals og ná sköttunum af kaupleigufyrirtækjunum sem þar eru skráð með einhverjum öðrum ráðum en það liggur fyrir niðurstaða, hæstaréttardómur um að framkvæmdaaðilinn, Impregilo, ber ekki ábyrgð þarna (Forseti hringir.) miðað við þágildandi lög. Ég undrast samt og spyr hæstv. fjármálaráðherra: Af hverju er ekki sú leið valin að greiða a.m.k. inn á skuldina til að lækka dráttarvaxtakostnaðinn?