135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

ólögmæt veðmálastarfsemi.

[15:11]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Herra forseti. Samkvæmt almennum hegningarlögum er bannað að hafa fjárhættuspil og veðmál að atvinnu og það varðar við lög að auglýsa, hýsa eða reka slíka starfsemi. Í síðustu viku var það dregið fram í dagsljósið að einn hv. alþingismaður hefði tekið þátt í pókerkeppni þar sem peningar voru undir. Ég hef ekki hugsað mér að gera það að umræðuefni en það var tilefni þess að ég leyfi mér að varpa fram spurningu til hæstv. dómsmálaráðherra.

Hér er það opinbert leyndarmál að póker er spilaður upp á peninga á mörgum stöðum hér á landi og í sjónvarpi er auglýst hvar taka megi þátt í póker á netinu, sérstakir sjónvarpsþættir eru sýndir frá keppni í póker með viðeigandi skýringum og jafnvel kennslu í þessu fjárhættuspili. Nú hefur sjálfur formaður Framsóknarflokksins, hv. þm. Guðni Ágústsson, látið þess getið í fjölmiðlum að hann telji ástæðu til þess að fara yfir lög og reglur í þessu eins og svo mörgu öðru. Á hann þá væntanlega við það að menn vilji leyfa samkvæmt lögum að póker sé spilaður hér á landi.

Ég spyr hæstv. ráðherra að gefnu tilefni: Hvað hyggjast dómsmálayfirvöld aðhafast á þessum vettvangi til að koma í veg fyrir þessa ólöglegu starfsemi?