135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

ólögmæt veðmálastarfsemi.

[15:13]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að segja hér um hvað er löglegt og ólöglegt í því sem hv. þingmaður nefndi. Ég veit hins vegar að á vegum dómsmálaráðuneytisins er unnið að því að endurskoða lög um happdrætti undir forustu Páls Hreinssonar hæstaréttardómara og með þátttöku aðila sem eiga hagsmuna að gæta og fulltrúa félagasamtaka sem eiga hagsmuna að gæta á þessu sviði til að tryggja að íslensk löggjöf í þessu efni samræmist evrópskri löggjöf og hægt sé að standa vörð um þá miklu hagsmuni sem hér eru í húfi þegar litið er til þeirra félagasamtaka og annarra sem hafa tekjur af því sem kalla má fjárhættuspil. Nefni ég þar lottó, spilakassa, happdrætti og annað slíkt. Ég hef einnig falið þessari nefnd að fara yfir reglur varðandi það sem lýtur að pókerspili, því að eins og hv. þingmaður gat um réttilega nýtur þetta spil mjög mikilla og vaxandi vinsælda og er markaðssett á margvíslegan hátt. Um allan heim vinna menn að því að móta reglur um það og setja reglur til að koma til móts við þann gífurlega áhuga sem er greinilega á því að spila þetta spil. Ég vænti þess því að þessi nefnd undir forustu Páls Hreinssonar muni einnig taka á þessu máli eins og öðrum sem varða fjárhættuspil.