135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

endurskoðun samnings við Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar.

[15:16]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Það sem mig langar brydda aðeins upp á tengist sölu á eignum sem Bandaríkjamenn áttu áður og voru síðan afhentar Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar. Réttarfarsleg staða þeirra eigna hefur verið nokkuð óljós. Það kom fram í umræðu hér á þinginu í tengslum við fjárlög og fjáraukalög að í samningum ríkisins og Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar var gengið þannig frá að félagið fékk 100% söluþóknun fyrir að ráðstafa þessum eignum. Félagið fékk sem sagt allt sem kom af sölunni í sinn hlut.

Nú hefur legið fyrir að það standi til að endurskoða þessi ákvæði. Ég kem hérna upp til að spyrja fjármálaráðherra sérstaklega að því hvað þeirri endurskoðun líði. Það hefur verið mat þeirra sem um þetta hafa fjallað að hér hafi fjármálaráðuneytið í raun farið mjög gróflega á svig við fjárreiðulög. Ég hefði líka gaman af því að vita hver afstaða fjármálaráðherra sé til þeirra mála, hvort hann telji ef til vill að óþarft sé að endurskoða þessi ákvæði og að í þessum efnum sé allt eins og það á að vera þannig að félag þetta hafi hér eftir sem hingað til 100% af því sem það fær í sinn hlut fyrir sölu eignanna til eigin ráðstöfunar en þannig hefur verið farið fram að þessu með þær 130 milljónir sem komið hafa inn fyrir sölu á síðasta ári. Þær fékk félagið orðalaust til sinnar ráðstöfunar og er ekki að sjá annað af þeim gögnum sem ég hef séð frá Ríkisendurskoðun en að það sé skráð inn sem tekjur félagsins.