135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

endurskoðun samnings við Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar.

[15:18]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Sú endurskoðun sem hv. þingmaður nefndi er í undirbúningi. Ég tel nauðsynlegt að hún fari fram. Eins og hv. þingmenn vita þá þróuðust mál á allt annan og á miklu jákvæðari veg hvað varðar þær byggingar og þá aðstöðu sem er fyrir hendi á Keflavíkurflugvelli. Satt best að segja áttum við von á því að starfsemi félagsins yrði þannig háttað að það þyrfti á fjármunum að halda frá ríkinu frekar en að það væri að skila tekjum af sölu eigna í ríkissjóð. Þess vegna var þessi háttur hafður á sem auðvitað er sérstakur. Því skal ekki neitað. Ég tel hins vegar að hann stangist ekki á neinn hátt við fjárreiðulögin. En það er mjög eðlilegt miðað við það að það þróaðist allt á hinn betri veg og að betur hefur gengið að koma eignunum í verð að þessum samningi verði breytt og ég á ekki von á öðru en að það geti gengið vel og skynsamlega fyrir sig.