135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

sala eigna ríkisins á Keflavíkurflugvelli.

[15:24]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég held að ég hafi ekki sagt áðan að þróunarfélagið ætti eignirnar. Ef ég hef gert það þá hafa það verið mismæli og leiðréttist hér með.

Ef ég hef skilið hv. þingmann ... (BjH: Það má ekki ráðstafa þeim án Alþingis.) Ef ég hef skilið hv. þingmann rétt þá er hann að tala um mismun á þeim tölum sem voru í tilboði þess félags sem keypti eignirnar og fyrir lá við fjárlagaafgreiðslu fyrir jólin og af þeirri niðurstöðu sem fyrirséð var síðan á endanlegum kaupsamningi, sem ég veit svo sem ekki enn þá hvort hefur verið gengið frá endanlega en leit út fyrir að yrði niðurstaðan þegar síðari talan var birt — en mismunurinn á þessum tölum skýrist á breytingum sem urðu frá því að tilboðið var gert og þangað til samningurinn var endanlega undirritaður og felst í tvennu ef ég man þetta rétt — og ég er að fara með þetta eftir minni — annars vegar því að breytingar á raflögnum á húsnæðinu verða núna ekki framkvæmdar af þróunarfélaginu heldur verða þær framkvæmdar af kaupandanum og kaupverðið lækkað þá sem því nemur og tekjur þróunarfélagsins þá eins og þær eru enn þá færðar og færðar í fjárlagafrumvarpinu lækka þá en kostnaður lækkar á móti. Önnur skýring er síðan sú að húsnæðið í fermetrum sem verið var að selja hafði ekki verið mælt endanlega þar sem eignirnar höfðu ekki verið skráðar í Landskrá fasteigna. Því var um færri fermetra að ræða þegar upp var staðið og því minna húsnæði um að ræða sem verið var að selja og þar af leiðandi lægri upphæð, herra forseti.