135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

sala eigna ríkisins á Keflavíkurflugvelli.

[15:26]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Mér kemur á óvart að enn sé verið að krukka í þessa kaupsamninga. Okkur voru sýndir þeir, reyndar óundirritaðir í fjárlaganefnd, við afgreiðslu fjárlaga og síðan höfðum við þá í höndum reyndar undirritaða svo síðar. Mér kemur því á óvart ef hæstv. ráðherra segir að nú sé enn verið að krukka í þessa kaupsamninga.

Ég vil vekja athygli á því að hér munar engu smáræði. Það munar 3 milljörðum kr. á því hvað Ríkisendurskoðun telur og hefur verið kynnt okkur í fjárlaganefnd að sé hennar mat á söluverði þessara eigna bókfært og hins vegar því sem fjármálaráðuneytið telur að eignin sé.

Eftir því sem fleira kemur upp í kringum bæði málflutning hæstv. ráðherra í þessu máli og þessara bréfa sem við höfum núna hér þá legg ég áherslu á það mál sem hv. þingmenn Atli Gíslason og Grétar Mar Jónsson hafa flutt um að það verði skipuð sérstök rannsóknarnefnd sem (Forseti hringir.) fari ofan í þessi mál samkvæmt 39. gr. stjórnarskrárinnar þannig að ekki geti talað hér sitt á hvað hæstv. (Forseti hringir.) fjármálaráðherra og Ríkisendurskoðun. Alþingi ber að fá (Forseti hringir.) niðurstöðu í þessu máli herra forseti. Og hvar er þetta þingmál sem er búið að liggja hér fyrir (Forseti hringir.) þinginu síðan í haust?