135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

sala eigna ríkisins á Keflavíkurflugvelli.

[15:27]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Alþingi mun auðvitað fá niðurstöðu í þetta mál. Það getur ekkert farið öðruvísi. En hv. þingmaður hefur nú gaman af því að þyrla upp moldviðri í kringum þetta einhverra hluta vegna. Fyrir jólin lá kauptilboð fyrir og það var að mati Ríkisendurskoðunar þess eðlis, það sterkt, ef ég má orða það svo, að það bæri að færa það í fjárlögin. Ríkisstjórnin lagði það til við fjárlaganefndina og fjárlaganefndin væntanlega eftir að hafa ráðfært sig við Ríkisendurskoðun lagði til við Alþingi að það yrði samþykkt á þann hátt.

En það var einungis um kauptilboð að ræða og eins og gerist stundum að þá breytast kauptilboð þangað til endanlegir samningar eru gerðir vegna breyttra forsendna og ég fór yfir þær (Gripið fram í: ... er bara rangt.) forsendur hérna áðan. (Gripið fram í.) Þær eru mjög skilmerkilegar (Gripið fram í.) og skýrar og hv. þingmenn ættu að hætta að (Forseti hringir.) kalla fram í og hlusta frekar á skýringarnar sem ég er að reyna að gefa þeim. (BjH: Það eru ósannindi í skýringunum.) Nei, nei.