135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

5. fsp.

[15:30]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég verð fyrst að biðja hv. þingmann afsökunar á því að ég skyldi ekki vera að hlusta nægjanlega vel en það er erfitt að tala við tvo framsóknarmenn í einu.

Varðandi þetta mál sem hann hefur fitjað upp á hér er það ekki þægilegasta málið sem menn þurfa að glíma við. Það sem helst þarf að hafa í huga í þessu er að allir þegnar landsins sitja við sama borð og fá sömu meðferð þegar þeir skulda skatta. Það er ástæðan sem liggur að baki því að þegar verið er að semja um hluti eins og þessa og þá gilda um það sérstakar reglur. Ef ég man rétt er ekki heimilt að semja um eða fella niður upphæðir eða vexti nema með leyfi Ríkisendurskoðunar, ég held að ég fari rétt með það. Það er gert til þess að allir sitji við sama borð og til að ekki sé mismunur á því hvernig farið er með mál hinna ýmsu einstaklinga í þjóðfélaginu.

Ég hef ekki verið að velta því fyrir mér að leggja til breytingar á því. Kannski er ástæða til þess að gera það. Þar sem málið hefur komið upp áður held ég að býsna erfitt geti verið að hafa aðra aðferð á þessu sem tryggir jafn vel að allir sitji við sama borð.