135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

áform um frekari uppbyggingu stóriðju.

[15:33]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Keppni áliðnaðarfyrirtækjanna um íslenskar orkulindir er kunn og kapphlaupið ekki í rénum. Í pípunum eru tvö eða þrjú ný álver og stækkunarhugmyndir liggja enn í loftinu í Straumsvík. Áformin ógna náttúruperlum bæði norðan heiða og sunnan auk þess sem þau eru bein ógnun við stjórn efnahagsmála hér á landi.

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar gefa afar misvísandi skilaboð um aðkomu ríkisstjórnar að málunum, allt frá því að hér sé einungis um frjáls fyrirtæki á markaði að ræða sem stjórnvöld hafi enga aðkomu að, eins og hæstv. umhverfisráðherra hefur lýst yfir, yfir í það sem hæstv. forsætisráðherra og viðskiptaráðherra sögðu í umræðum hér á Alþingi Íslendinga 12. nóvember sl. að í ljósi yfirlýsingar Landsvirkjunar, sem þá var nýkomin, um að fyrirtækið ætlaði ekki að ganga til samningaviðræðna að sinni við fyrirtæki sem hyggja á byggingu nýrra álvera á Suður- og Vesturlandi. Hæstv. forsætisráðherra sagði að það liti út fyrir að óbreyttu að ekki yrði reist álver í Þorlákshöfn eða nýtt álver í Straumsvík. Undir þetta tók hæstv. viðskiptaráðherra.

Af yfirlýsingum ráðamanna Sjálfstæðisflokksins upp á síðkastið virðast þessar yfirlýsingar hæstv. forsætisráðherra og hæstv. viðskiptaráðherra gleymdar. Á hinn bóginn hafa talsmenn Samfylkingarinnar kosið að tjá sig sem minnst um fyrirhugaðar álversframkvæmdir, a.m.k. þær sem eru á fullu í Helguvík, þrátt fyrir að ráðamenn eða stjórnendur þess fyrirtækis hyggist hefja framkvæmdir að því er virðist núna strax og ætla að framleiða fyrsta áltonnið á árinu 2010. Án tilskilinna leyfa er fyrirtækið enn til losunar á gróðurhúsalofttegundum, án úrskurðar umhverfisráðherra um heildstætt mat á virkjunar-, orkuflutninga- og álversframkvæmdunum og svo liggur heldur ekki fyrir stefna ríkisstjórnarinnar varðandi loftslagsmál og losunarmál.

Hæstv. iðnaðarráðherra hefur tjáð sig um þessi mál, kannski ekki alveg nýverið en hann gerði það í Blaðinu, sem er hætt að koma út, í sumar er leið. Hann sagði þá tæpitungulaust að það væri borðleggjandi að öll þau miklu áform í stóriðju á Íslandi sem þá voru í pípunum, og eru að því er virðist enn, færu langt fram úr öllum þeim heimildum sem við hefðum varðandi losun á gróðurhúsalofttegundum og líklegt væri að við hefðum í framtíðinni.

Nú er ríkisstjórn Íslands búin að lýsa því yfir að hún ætli að styðja niðurstöðu Balí-fundarins í loftslagsmálunum. Hún er afar róttæk og gengur út á að draga saman losun gróðurhúsalofttegunda á næstu 12 árum, fyrir 2020, um 25–40%. Ríkisstjórn sem lýst hefur yfir slíkum stuðningi er að sjálfsögðu skuldbundin í þessum efnum og þar af leiðandi brennur það á þeirri ríkisstjórn að sýna í verki að hún ætli sjálf að ná þessum markmiðum sem yfirlýstur stuðningur er við á Balí.

Hæstv. forseti. Í ljósi þess sem ég hef rakið hér hef ég lagt fyrir hæstv. iðnaðarráðherra Samfylkingarinnar, Össur Skarphéðinsson, eftirfarandi spurningar: Ég spyr hvort ríkisstjórnin hafi tekið formlega afstöðu til þess hvort nýbygging eða stækkun þriggja til fjögurra álvera sé æskileg á næstu árum út frá þjóðhagslegu sjónarmiði, út frá umhverfislegu tilliti og ef ríkisstjórnin telur þetta vera æskilega þróun, hvaða álver ætlar hún þá að láta njóta forgangs.

Ég spyr líka hver staða viðræðnanna sé við Norðurál vegna álvers í Helguvík og hver aðkoma opinberra aðila hafi verið að þeim áformum eftir að samkomulag var undirritað milli Norðuráls, Fjárfestingarstofu iðnaðarráðuneytis, Útflutningsráðs og bæjarstjórnar Reykjanesbæjar í nóvember 2005.

Ég spyr hvort samningaviðræður við Alcoa vegna álvers á Bakka við Húsavík séu komnar á rekspöl og hver aðkoma ríkisstjórnarinnar hafi verið að þeim samningaviðræðum í kjölfar undirritunar samkomulags ríkisstjórnarinnar og Alcoa í New York 1. mars 2006.

Að lokum spyr ég hverju það sæti að stjórnvöld telji sig ekki geta haft áhrif á uppbyggingu stóriðju í ljósi þess að þau eru samningsbundnir þátttakendur í sumum stóriðjuverkefnunum, m.a. í Helguvík og á Bakka. Það er ríkisstjórnin eða stofnanir á vegum hennar sem veita leyfi fyrir starfseminni sem um er að ræða, virkjanirnar eru í flestum tilfellum á þjóðlendum í umsjá ríkisins, orkufyrirtækin eru nær alfarið í eigu opinberra aðila og stóriðjufyrirtækin eru háð losunarheimildum sem er í verkahring þessarar ríkisstjórnar að úthluta.