135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

áform um frekari uppbyggingu stóriðju.

[15:38]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þá umhyggju sem hún sýnir náttúru og umhverfi Íslands en ég get fullvissað hana um að ríkisstjórnin deilir því með henni. Það er alveg ljóst að þessi ríkisstjórn mun sýna það í verki að náttúruperlum verður ekki kastað í forina.

Hv. þingmaður hefur sett fyrir mig töluvert margar og ítarlegar spurningar og ég ætla að reyna að svara þeim eftir bestu getu. Hv. þingmaður spyr í fyrsta lagi um hvort ríkisstjórnin hafi tekið formlega afstöðu til þess hvort æskilegt sé að byggja eða stækka þrjú eða fjögur álver og hvort það hafi verið metið í þjóðhagslegu eða umhverfislegu tilliti. Svarið er alveg afdráttarlaust nei, ríkisstjórnin hefur ekki tekið neina formlega afstöðu til þess. Hv. þingmaður veit hins vegar að tvö fyrirtæki hafa haft álver á prjónunum frá árinu 2005.

Að því er varðar sjónarmið umhverfisverndar sem hv. þingmaður spyr um þá er afstaða ríkisstjórnarinnar algjörlega ljós. Það eru í gildi lög frá Alþingi og reglur á þeim byggðar og þær munu gilda um álver og eins og er um allar aðrar framkvæmdir verða álver að uppfylla þær út í hörgul.

Hvað þjóðhagsleg áhrif varðar kom fram í skýrslu fjármálaráðuneytisins um þjóðarbúskapinn í apríl og október á síðasta ári að miðað við tímaáætlun þessara tveggja fyrirtækja sem fyrir liggur yrðu þensluáhrifin á hagkerfið af báðum, ef fram gengju, minni en helmingur af áhrifum Kárahnjúkavirkjunar og Fjarðaáls samanlagt. Síðan hefur vinda lægt í efnahagslífinu og ég vil líka að það komi fram, m.a. út af umræðum af hálfu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, að fyrir liggur að 15. apríl er stefnt að því að hagrænt mat á áhrifum stóriðjuframkvæmda á íslenskt efnahagslíf verði lagt fram. Það er unnið fyrir tilstuðlan iðnaðarráðuneytisins af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og má í því sambandi benda á ítrekaðar ábendingar OECD um nauðsyn slíks mats.

Hv. þingmaður spyr líka um stöðu viðræðna við Norðurál vegna Helguvíkur og hver hafi verið aðkoma opinberra aðila eftir undirritun samkomulagsins frá 2005. Í fyrsta lagi er það misskilningur hjá hv. þingmanni að iðnaðarráðuneytið sjálft hafi verið þátttakandi í því samkomulagi, svo var ekki, Fjárfestingarstofan var þar, eins og hv. þingmaður rifjaði upp. Í öðru lagi gilti það samkomulag einungis í 11 mánuði og það var ekki endurnýjað. Í þriðja lagi hefur Norðurál komið að máli við iðnaðarráðuneytið og óskað eftir því að gerður verði sérstakur fjárfestingarsamningur við fyrirtækið eins og hefur tíðkast um fyrri stórframkvæmdir af þessu tagi. Ég taldi að ekki væru forsendur fyrir því að gera slíkan samning.

Hv. þingmaður spyr síðan hvort samningaviðræður við Alcoa séu komnar á rekspöl og hver aðkoma ríkisstjórnarinnar hafi verið að þeim í kjölfar undirritunar samkomulagsins frá New York í mars 2006. Það liggur alveg ljóst fyrir að ekkert nýtt samkomulag hefur verið gert milli Alcoa og ríkisstjórnarinnar, það eru engar viðræður í gangi. Ég hef hitt forstjóra Alcoa tvisvar, þrisvar sinnum eins og nokkra aðra forstjóra fyrirtækja sem hafa haft áform um að efla starfsemi hér eða koma upp starfsemi en það eru engar samningaviðræður í gangi. Í gildi er eldri samstarfsyfirlýsing, eins og hv. þingmaður vísaði til, um samráð við framkvæmd undirbúningsathugana og það gildir til 1. júlí. Framlag íslenskra stjórnvalda, ríkisstjórnarinnar, hefur einkum tengst innviðum á Norðurlandi, sér í lagi ávinningi og áhrifum af Vaðlaheiðargöngum en eins og hv. þingmaður veit hafa menn mikinn áhuga á Vaðlaheiðargöngum.

Síðan spyr hv. þingmaður um stjórntæki og hverju það sæti að stjórnvöld telji sig ekki geta haft áhrif á uppbyggingu stóriðju þar sem ríkisstjórnin sé samningsbundinn þátttakandi í undirbúningi sumra verkefna. Ég vil nú hafna því að við séum samningsbundinn þátttakandi í undirbúningi ef frá er talið það sem hv. þingmaður rifjaði hér upp um samkomulag við Alcoa sem rennur út 1. júlí nk. Það liggur alveg fyrir að þessi ríkisstjórn hefur tekið sér ný stjórntæki sem eiga að tryggja það sem hv. þingmaður varaði við hér áðan, að náttúruperlum væri kastað í forina.

Þegar ríkisstjórnin var mynduð var það sameiginleg niðurstaða að ekki yrði ráðist í stóriðju sem gæti haft skaðleg áhrif á náttúruna. Hún tryggði það með því að lýsa því yfir að ekki yrði farið inn á óröskuð svæði. Hún tryggði það með því að lýsa því yfir að engin rannsóknar- eða nýtingarleyfi yrðu gefin út fyrr en fyrir lægi rammaáætlun og hún hefur tryggt að sú rammaáætlun muni ekki liggja fyrir fyrr en Alþingi sjálft hefur rætt hana og samþykkt. Það var í krafti þessa sem ríkisstjórnin lýsti því yfir strax á fyrsta degi sínum að sex háhitasvæði sem hefðu sérstakt verndargildi yrðu tekin frá og vernduð. Það var þess vegna sem ég lét það verða eitt af mínum fyrstu verkum þegar ég steig fæti inn í iðnaðarráðuneytið að vísa frá öllum umsóknum um ný rannsóknarleyfi á óröskuðum svæðum. Það var þess vegna sem rammaáætlunin um vernd og nýtingu háhitasvæða var sett í gang og það var þess vegna sem Alþingi var gefinn kostur á að eiga síðasta orðið í henni. Það var þess vegna sem hvatt var til þess af hálfu ríkisstjórnarinnar að orkufyrirtækin hefðu til reiðu afl fyrir nýjan hátækniiðnað og stjórn Landsvirkjunar svaraði því fyrir sitt leyti með ákvörðun um að (Forseti hringir.) ekki yrði selt rafmagn til nýrra álvera. Það var þess vegna sem hæstv. umhverfisráðherra hefur verið hér að berjast fyrir nýju landsskipulagi. Með öðrum orðum, þessi ríkisstjórn hefur tekið sér stjórntæki (Forseti hringir.) sem eiga að tryggja að hvaða framkvæmdir sem ráðist verður í, verði óraskaðri náttúru (Forseti hringir.) ekki raskað.