135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

áform um frekari uppbyggingu stóriðju.

[15:51]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson mætti muna eftir einni auðlind í viðbót þegar hann er að telja þetta upp, það er mannauðurinn. Það væri kannski ráð að nota einhvern tíma hausinn á sér og sjá kosti í fleiru en því einu sem hv. þingmaður er svo bundinn af.

Þó að hæstv. iðnaðarráðherra tali snöfurmannlega er engu að síður ákaflega erfitt að fá botn í það hver staða þessara mála er hjá hæstv. ríkisstjórn. Veruleikinn er sá að undirbúningurinn er á fullu og þeir sem fyrir honum standa a.m.k. telja sig greinilega vera að því í góðri trú. Stjórnvöld hafa ekki stoppað þá af í Helguvík, á Bakka, hvað varðar olíuhreinsunarstöð, hvað varðar áform í Þorlákshöfn, hvað varðar áform um stækkun eða flutning í Straumsvík. Það er nauðsynlegt af öllum ástæðum, umhverfislegum, efnahagslegum, atvinnulegum, að þessi mál liggi skýrt fyrir hjá hæstv. ríkisstjórn.

Telur ríkisstjórnin að hana vanti lagastoð til að stýra þessum fjárfestingum? Vill hún það eða vill hún það ekki? Ekki stendur á Alþingi, trúi ég, að afgreiða heimildarlög ef ríkisstjórnin þarf sterkari lagalegar forsendur til að stýra þessum fjárfestingum þannig inn í hagkerfið, ef einhverjar verða, að ekki kvikni í því. Hvernig hyggst ríkisstjórnin standa að hagstjórn ef tvö, þrjú, fjögur stóriðjuverkefni fara af stað á næstu missirum? Eða er það orðið markmið í sjálfu sér að keyra íslenska hagkerfið áfram í bullandi þenslu og verðbólgu með hæstu stýrivöxtum í heimi þannig að rjúki úr öllu saman og bremsurnar séu rauðglóandi og það á kostnað íslenskrar náttúru? Er það þannig sem menn sjá þetta fyrir sér til frambúðar? Já eða nei. Og er ríkisstjórnin þá sátt við það að Seðlabankinn geti ekki lækkað stýrivexti, stýribankinn með seðlavextina sína? Það er alveg ljóst, það liggur fyrir að Seðlabankinn hefur sagt: Fari þessi stóriðjuverkefni af stað munum við ekki geta hafið vaxtalækkunarferlið. Það er skýrt. Og ríkisstjórnin verður að gera betur en hæstv. iðnaðarráðherra gerði hér. Áformin liggja öll fyrir, m.a. í skýrslu frá honum sjálfum sem við ræðum á eftir.