135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

áform um frekari uppbyggingu stóriðju.

[16:05]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég las það í blöðunum að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefði um helgina verið að álykta gegn hlutum sem ríkisstjórnin er ekki að gera. Enn kemur hér hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir og fjasar t.d. um álver í Þorlákshöfn sem að minnsta kosti þessi iðnaðarráðherra kannast ekkert við. (SJS: Rugl, þetta er bara næturblogg.) Það er allt í lagi þó að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar komi hingað og tali um misvísandi yfirlýsingar af hálfu ríkisstjórnarinnar.

En eigum við aðeins að skoða hvernig hv. þm. VG hafa talað? Var það ekki þessi hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem fyrir kosningar talaði um fimm ára stóriðjustopp? Þegar nær dró kosningum talaði hann um tveggja ára stóriðjustopp. Tveimur dögum eftir kosningar þegar hann var að biðja Sjálfstæðisflokkinn um að kippa sér upp í hjónasængina þá sagði hann að álver í Helguvík yrði ekkert „últimatum“ af hálfu VG. (Gripið fram í.) Það var líka sami hv. þingmaður sem var samgöngu- og landbúnaðarráðherra sem hleypti hér áfram álveri í Keilisnesi. En honum fyrirgefst það og ég ætla ekki að fara frekar út í þá sálma.

Hv. þm. spurði — sem var málefnaleg spurning af hans hálfu — hvort ríkisstjórnin eða iðnaðarráðherra teldu að hann vantaði lagastoð ef hann hefði áhuga á því að stöðva stóriðjuframkvæmdir. Áður var það einfaldlega þannig að það var Alþingi sem tók ákvörðun um virkjanir og þá þurftu að liggja fyrir áform um með hvaða hætti ætti að nýta orkuna þannig að Alþingi tók í reynd ákvörðun um stóriðju. Það var líka iðnaðarráðherra sem áður fyrr hafði vald til að hleypa í gegn orkusölusamningum eða ekki.

Ef menn ætla að fara í framkvæmdir sem hugsanlega gætu spjallað náttúruna verðum við að hafa stjórntæki til þess að geta útilokað það. Við teljum að við séum á leið til þess að minnsta kosti að tryggja það að ósnortnum náttúruperlum verði ekki raskað. Það er það sem hlýtur að skipta mestu máli. Er það ekki? Eða eru menn bara á móti stóriðju sem framleiðsluaðferð af einhverjum prinsippástæðum? (Forseti hringir.) Það var hv. þingmaður ekki árið 2003 þegar hann var á fundi hjá Orkuveitu Húsavíkur.