135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

raforkumálefni.

311. mál
[16:28]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hæstv. ráðherra fyrir góða skýrslu sem kom út í nóvember/desember á síðastliðnu ári og ég hafði tækifæri til að kynna mér hana þá og þaullesa. Einnig vil ég þakka hæstv. ráðherra fyrir það sem hann fór hér yfir.

Skýrslan er vissulega það viðamikil að erfitt er að fara yfir hana á tveimur mínútum. En ég sé að a.m.k. miðað við mælendaskrá ætla fjölmargir þingmenn að taka þátt í umræðu í dag en því miður hef ég ekki tækifæri til þess. En vegna áhuga míns á útgáfu og leyfisveitingum vil ég spyrja ráðherrann um eitt. Á blaðsíðu 58 er fjallað um starfshóp sem var skipaður af þremur hæstv. ráðherrum og gert ráð fyrir því að starfshópurinn mundi ljúka við úttekt sína fyrir árslok 2007 og ég spyr hv. ráðherra hvort umræddur starfshópur sé búinn að skila og hver niðurstaðan hafi verið.

Ég vil einnig spyrja hvort hæstv. ráðherra hafi, í ljósi þeirra tilvitnunar sem ég vísaði til í umræðu um Sultartangavirkjun varðandi kafla 4.1.1. Líkur á aflskorti, og þar sem samkvæmt 9. gr. raforkulaga ber Landsnet ábyrgð á öruggri stýringu raforkukerfisins, farið í þær viðræður sem hann lýsti hér yfir í þeirri umræðu varðandi Sultartangavirkjun og hvað líði því að koma umræddum túrbínum inn á netið að nýju.

Eins og við vitum, hæstv. forseti, þá skiptir gríðarlega miklu máli að þær túrbínur sem eru í gangi og eiga að vera í gangi framleiði inn á netið þannig að líkurnar á aflskorti (Forseti hringir.) séu litlar.