135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

raforkumálefni.

311. mál
[16:30]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að hryggja hv. þingmann með því að báðar túrbínurnar í Sultartanga eru úti. Góða hliðin á því máli er hins vegar að miðað við kerfið á reiðuafl í kerfinu að vera sem svarar til annarrar þessara maskína, þ.e. 70 megavött, en kerfið þoldi eigi að síður útslátt beggja og þær eru enn þá úti.

Að því er varðar fyrirspurn hv. þingmanns um nefndina sem getið er um á bls. 58 og sett var á stofn af mér og tveimur öðrum hæstv. ráðherrum þá hefur hún skilað niðurstöðu, hún gerði það fyrir tíu dögum, held ég. Niðurstöðurnar voru þær að það var svolítið ósamræmi á milli afgreiðslna stofnana eins og við töldum okkur verða vara við í umræðum sumarsins, m.a. um Múlavirkjun og Fjarðarárvirkjun. Hluti af vandamálinu er leystur með því frumvarpi sem liggur fyrir þinginu um mannvirkjagerð og hv. þingmaður er nú sérfræðingur í. Hluta af vandamálinu má leysa með því að breyta reglum en sömuleiðis hef ég lýst því yfir að það þurfi að hafa það sem á vondri íslensku má kalla „One stop shop“ fyrir þá sem eru að sækja um leyfi fyrir þessar smávirkjanir. Það eru oft litlir aðilar og tilheyra oft litlum sveitarfélögum og ég hef sagt það, vegna þess að hv. þingmaður hefur a.m.k. einu sinni talað um smákóngaveldi í orkubransanum og þekkir það sennilega betur en ég, að fyrir mitt leyti er ég reiðubúinn til að afsala mér því valdi sem ég hef um leyfi gagnvart þessum litlu virkjunum til stofnana umhverfisráðuneytisins til þess að greiða fyrir því að afgreiðslan verði einfaldari.