135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

raforkumálefni.

311. mál
[16:33]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það skal viðurkennt að ég er ekki, eins og hv. þingmaður sem talaði á undan mér, búin að lúslesa skýrsluna og því langar mig til að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra tveggja spurninga áður en lengra en haldið og það varðar raforkunotkun stóriðjunnar. Töflurnar í skýrslunni eru flestar, ef ekki allar, miðaðar við árið 2006 og 2006 var stóriðjunotkunin náttúrlega talsvert minni en hún er í dag. Nú er gert ráð fyrir að Reyðarál verði komið í full afköst á fyrsta ársfjórðungi 2008 og mig langar til að biðja hæstv. iðnaðarráðherra að svara spurningunni: Ef við værum með Reyðarál hér inni og Kárahnjúkavirkjun í töflunni á bls. 65 hve mikil væri þá raforkunotkunin orðin samtals? Í töflunni segir 9.925 gígavattstundir en ég þykist vita að hún sé talsvert hærri þegar Reyðarál verður komið í full afköst.

Sömuleiðis langar mig til að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra hvort það sé ekki rétt skilið hjá mér að eina stóriðjan sem gert er ráð fyrir í þessum raforkuspám sé vegna Reyðaráls og Kárahnjúkavirkjunar, hvort um nokkra aðra stóriðju sé að ræða í töflum um raforkuspá.