135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

raforkumálefni.

311. mál
[16:35]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég sagði í ræðu minni áðan þá sýni ég á öll mín spil. Ég hef t.d. í þessari skýrslu áform sem eru einhvers staðar á kreiki, sem hafa t.d. rekið á fjörur Landsnets um stóriðju, sem eru fjarri því að hafa farið yfir borð iðnaðarráðherra né heldur verið samþykkt af Landsneti, eins og kemur reyndar alveg skýrt fram í skýrslunni þar sem sýnt er hvaða áform þetta eru, hvað línulagnir er þar hugsanlega verið að ræða um. Það er jafnframt tekið algjörlega skýrt fram að þar eru engar ákvarðanir komnar fram. Landsnet hefur þá lagaskyldu að veita viðskiptavinum sínum þá þjónustu sem þeir óska eftir og þarf oft að gera það með tiltölulega skömmum fyrirvara. Það leiðir til þess að Landsnet hefur á sínum skrifborðum alls konar áætlanir, t.d. bendi ég hv. þingmanni á það að ég skaut heldur ekki undan hugmyndum sem þar er að finna um hálendislínuna en eins og hv. þingmaður veit er ég enginn sérstakur áhugamaður um hana. (KolH: Það á eftir að koma fram í ræðu minni á eftir.)