135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

raforkumálefni.

311. mál
[16:52]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi það síðasta sem hv. þingmaður reifaði hér, þ.e. mat Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, þá er þar algjörlega farið eftir þeim ábendingum sem er að finna í skýrslum OECD, tvisvar eða þrisvar sinnum held ég þannig að sú skýrsla er þess eðlis.

Hv. þingmaður spurði hvernig stæði á því að menn hefðu ekki ráðist fyrr í Búðarhálsvirkjun. Ég held að svarið liggi í því að orkuframleiðsla í Búðarhálsi hafi verið það dýr, þ.e. orkan sem þar á að framleiða er töluvert dýrari en annars staðar. Hins vegar endurspeglar ákvörðunin um að ráðast í virkjunina það að nú er verið að sækja í íslenska græna endurnýjanlega orku af ýmsum fyrirtækjum utan hins hefðbundna stóriðjugeira sem eru reiðubúin til að greiða hærra verð en menn hafa verið að greiða til þessa.

Hv. þingmaður tók upp það sem við höfum rætt áður og hann kallar leyndarhjúp sem stóriðjufyrirtækin og orkufyrirtækin í landinu sveipa um verð á rafmagni til stóriðju. Ég sagði einu sinni í svari við hv. þingmann að sennilega væri enginn betur til þess fallinn að reikna það út út frá þeim upplýsingum sem í reikningi þeirra koma fram en hv. þingmaður. Mér heyrist á honum miðað við það sem ég hef sjálfur reynt að reikna út, ég hef ekki aðrar upplýsingar en tölvuna og blýantinn, að þá sé hann ekki fjarri því sem að að minnsta kosti ég komst að.

Að því er varðar Þjórsárver þá er það einfaldlega þannig að stjórn Landsvirkjunar hefur sagt að búið sé að leggja þann virkjunarkost til hliðar. Hvað varðar þau áform sem hv. þingmaður nefndi hér um Langasjó þá er það sömuleiðis partur af því sem þessi ríkisstjórn sagði þegar hún hóf feril sinn, ég held bara á þeim fundi sem forsætisráðherra og utanríkisráðherra hæstvirtir héldu til að kynna sáttmála ríkisstjórnarinnar, að það yrði ekki farið í Langasjó í virkjanaskyni á því tímabili (Forseti hringir.) sem verið er að gera rammaáætlunina.