135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

raforkumálefni.

311. mál
[16:56]
Hlusta

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það gleður mig sérstaklega að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon deilir því með mér að þörf sé á því að styrkja byggðalínuna og þar kunni að liggja mikilvægar auðlindir fyrir okkur sem höfum áhuga að því að nýta þær til góðra verka.

Það voru nokkur atriði í ræðu hv. þingmanns sem ég hefði áhuga á að forvitnast um en tímans vegna er kannski ekki hægt að fara í margt. Í fyrsta lagi langaði mig til að ræða við hann um þá staðhæfingu eins og ég skildi hana að raforkuverð á Íslandi væri of hátt og það mætti að sönnu lækka það. Nú get ég alveg deilt því með honum að við viljum öll að kjör á raforku í landinu séu góð og í samræmi við þá framleiðslu sem þar er um að tefla. En ég vil nefna það í þessu samhengi að við erum með ágætan samanburð við Norðurlöndin á blaðsíðu 21 í skýrslu hæstv. iðnaðarráðherra þar sem fram kemur m.a. að ef við berum saman verðið á Íslandi við verðið í Noregi þá er það umtalsvert hærra þar en á Íslandi. Þá er ágætt að hafa það í huga vegna þess að það hefur dálítil áhrif í þessu samhengi að Noregur er að mörgu leyti ekkert ólíkur okkur hvað varðar framleiðslueiningar, þetta eru yfirleitt vatnsaflseiningar sem þar er um að tefla. Það er líka fróðlegt að sjá hvað þeir hafa farið út í að skattleggja raforkuna mikið.

Það æpir reyndar á mann þarna, sérstaklega með Danmörku, að þar hafa svokallaðir grænir skattar, auðlindagjöld og mengunargjöld verið mjög áberandi. Er þingmaðurinn á þeirri skoðun, eins og mér hefur svona heyrst, að það komi til greina að setja græna skatta á raforkuna? Telur hann það vera kost sem við gætum horft til sérstaklega með tilliti til þess að slíkt mundi hækka raforkuna verulega? Mér er raunar til efs að raforkuframleiðsla okkar sé með þeim hætti að eðlilegt sé að (Forseti hringir.) leggja slíka skatta á hana.