135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

raforkumálefni.

311. mál
[17:05]
Hlusta

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Hér liggur fyrir prýðileg skýrsla af hálfu hæstv. iðnaðarráðherra Össurar Skarphéðinssonar og kemur til vegna þeirra breytinga sem urðu á raforkulögunum árið 2003 að mig minnir en þá var kveðið á um að skýrsla af þessum toga skyldi lögð fyrir Alþingi. Það er að mörgu leyti dálítið áhugavert að velta fyrir sér innihaldi svona skýrslu vegna þess að það var nú eðli þeirrar lagasetningar að reyna að skapa samkeppni á raforkumarkaði, aðskilja einkaleyfisþætti og sérleyfisþætti frá samkeppnisþáttum. Skýrslan þarf því pínulítið að bera þess merki að það má ekki stíga á samkeppnisþættina og þegar maður fer að leita að upplýsingum sér maður að það er aðeins farið að grilla í að samkeppnisaðilar vilji ekki sýna manni allt, enda stendur það ekki til. Spáhluti skýrslunnar er því ekkert síður áhugaverður en lýsing á fyrirtækjunum eins og var nú frekar hérna áður fyrr áður en raforkulögin tóku gildi. Fram að þeim tíma voru engin slík lög í gildi.

Ég held að það sé áhugavert að velta fyrir sér þeirri þróun sem hefur orðið á almennum markaði eftir setningu þessara raforkulaga. Margir höfðu efasemdir um að okkur muni ganga vel að koma á almennilegum samkeppnismarkaði ekki síst vegna þess að orkumarkaðurinn okkar einstakur að því leyti til að fyrir utan það að við erum eyja er eiginlega öll raforkuframleiðslan vatnsafl eða jarðgufa, sem hefur svo núverið verið að gefa dálítið í, sem þýðir að verðmyndun öll ber þess merki. Þar fyrir utan er einn aðili er langstærstur í raforkuframleiðslu. Annar er langstærstur í raforkusölu. Allt þetta hefur áhrif á hugsanlega samkeppni og það hefur nú komið í ljós að það hafa ekkert verið gríðarlega mikil skipti hjá raforkusölunum og það er áhugavert í þessu sambandi að horfa til Norðurlandanna.

Það hefur gengið afar illa hjá Dönum að koma samkeppni á. Mig minnir að í skýrslum standi að um 1,5% notenda þar hafi skipt um raforkusala. Í Noregi hefur þetta verið lengst við lýði og það er gaman að nefna það að Norðmenn tókust á við þetta verkefni að eigin vilja árið 1990 þegar þeir settu slíka löggjöf. Þessi umræða var ekkert komin í þann gang þá hjá Evrópusambandinu og það var ekkert fyrr en þeir fóru sérstaklega að hvetja til skipta að þá fengu þeir út úr því rúm 11% sem nú er talan hjá Norðmönnum. Hvatinn til að skipta er því ekkert gríðarlega mikill og maður sér það alveg þegar við erum að tala við fyrirtæki eða einstaklinga um að það muni kannski nokkrum tugum króna þá er náttúrlega kannski spurning hvort það sé tilraunarinnar virði eða hvort menn nenni mikið að skipta. Þetta er sá vandi sem samkeppnisreksturinn er í. Þetta á við um lokanotandann, þ.e. þá sem kaupa af sölufyrirtækjunum.

Öðru máli getur auðvitað gegnt framleiðslumegin og það er áhugavert að hæstv. iðnaðarráðherra nefndi í því sambandi væntanlegar breytingar á orkumarkaðnum sem við munum væntanlega sjá núna á næstu vikum. Þar eru menn að nálgast þetta viðfangsefni með þeim hætti að ýta undir þessa samkeppni. Það er mín persónulega skoðun að samkeppninnar muni helst sjá stað á framleiðsluvængnum í samanburði á orkugjöfum, hvað þeir gæfu hugsanlega af sér í verði. Þá er náttúrlega langlíklegast að samkeppnin verði mest hjá stórnotendum, að það séu stóru fyrirtækin sem beri í raun mest úr býtum þegar kemur að raforkukaupum. Þetta er eðlilegt sjónarmið og algjörlega eðlilegt miðað við það kerfi sem við erum með og almennt erum á því að sé rétt á Vesturlöndum. Það er ekkert slæmt við það. En það er bara sjálfsagt að halda því til haga.

Mig langar aðeins að fara ofan í örfáa þætti í þessari skýrslu og ég tek það fram að hún er þess eðlis að það er ómögulegt að fara kannski djúpt ofan í einstaka þætti. Þetta er bara fróðleg lesning fyrir menn að skoða og kynna sér og ætti að skýra hlutina mjög vel fyrir mörgum. Ég hef beint sjónarmiðum mínum sérstaklega að flutningskerfinu, uppbyggingu þess. Ég held að þar séu töluvert miklir möguleikar fyrir okkur í framtíðinni til þess að nýta betur þá orku sem við höfum í landinu og líka til þess að horfa á orkumarkaðinn með þeim hætti að ekki sé gengið eins mikið á umhverfið út af því að það er auðvitað sjónarmið okkar allra. Hvað sem menn segja um það þá viljum við öll að gengið sé vel um umhverfið.

Ég tek eftir því að það stendur til að fara hér í línu, Brennimel/Sigöldu. Eftir því sem mér skilst hefur í vetur ríkt alvarlegt ástand miðað við það sem hefur verið í afhendingaröryggi frá Sigölduvirkjun. Reyndar er í því sambandi ágætt að muna að afhendingaröryggi á Íslandi er mjög gott. Engu að síður hefur það verið aðeins lakara út af veðri og línunni frá Sigöldu að Kröflu. Eins kemur þarna Kröflulína II inn og Blanda og Rangárvellir. Allt eru þetta mjög mikilvægar línur í þessa uppbyggingu sem ég er svo mikið að tala fyrir á flutningskerfinu. Síðan til viðbótar þessu getum við náttúrlega horft á það sem við hæstv. iðnaðarráðherra höfum rætt um áður, þ.e. hvernig við horfum síðan á framhaldið. Þar held ég að við eigum að vera dálítið djörf og einmitt að reikna svolítið út hvað við erum að gera, hvað við fáum út úr því í raun og veru.

Í þessari skýrslu kemur fram að Landsnet lítur svo á að það þurfi að hafa reiðuafl sem samsvarar einni vél í Hrauneyjarfossi. Hrauneyjarfossvirkjun er gjarnan kölluð almenna virkjunin, að hún sé sú sem almenni markaðurinn á. En hún var náttúrlega ekkert byggð fyrir almenna markaðinn nema að hluta til. Engu að síður er talað með þeim hætti að þegar þarf að fara að gefa í þá er Hrauneyjarfossvirkjun keyrð upp. Það eru 70 megavatta vélar í Hrauneyjarfossi. Það eru 115 megavatta vélar í Kárahnjúkum. En Kárahnjúkavirkjun hjálpar okkur ekkert nógu mikið með aflið út af þessum vandamálum þarna fyrir austan. Það þarf alltaf að passa upp á það fyrir utan það að þótt aflið komi inn í kerfið gegnum Kárahnjúkavirkjun þá verður Landsnet væntanlega að horfa til þess þegar það skipuleggur sitt kerfi að ef stóru vélarnar fara út annars staðar þá þarf að gæta að því. Um leið og maður segir að það sé hægt að keyra þetta kerfi í raun harkalegar en gert er og keyra það meira í skorpum, ef maður getur tekið svo til orða, þá þarf auðvitað að gæta þess að þetta neyðarástand sem getur skapast í raforkukerfinu skapist ekki. Þess vegna er mjög ánægjulegt þetta samstarf sem raforkufyrirtækin eru núna í. Ég held að það muni skila góðum árangri. En ég vil jafnframt hvetja þá sem eru í þessu neyðarsamstarfi og ráðherrann sérstaklega til þess að passa upp á þessa góðu tæknimenn um að það sé allt í lagi þótt að maður vilji ekki vera óvarkár að samt að vera ekki alveg alltaf með belti og axlabönd og björgunarhringinn líka þegar við erum að horfa á þessar fjárfestingar.

Ég tek líka eftir öðru hérna varðandi flutningskerfið og mig langar til þess að spyrja ráðherrann að því sérstaklega. Það kemur fram að Landsnet hafi verið í verkefnum út af Alcan, út af Helguvík eitthvað og þessari aflþynnuverksmiðju á Akureyri og það kemur fram að áfallinn kostnaður Landsnets vegna Alcans sé 100 millj. kr. en að sá kostnaður verði greiddur í samræmi við þetta MoU [Memorandum of Understanding] sem þar hefur verið gert. Mig langar að spyrja ráðherrann að því hvort þetta sé þá vegna þeirrar niðurstöðu sem varð um að það ætti að setja hluta af þeim línum í jörðu og að fyrirtækið hafi ákveðið að koma til móts við það vegna þess að ég get ekki betur séð en að í öðrum tilvikum sé það þannig að Landsnet hafi þetta verkefni. Mér finnst brýnt að Landsnet hafi það verkefni að byggja upp flutningskerfi í landinu en ég vil enn fremur samt taka fram að það þarf líka að vera möguleiki fyrir einkaaðila að koma að byggingu flutningskerfa ef Landsnet treystir sér ekki til þess, meðal annars til þess að greiða fyrir verkefnum með einhverjum hætti. Mín skoðun er því sú að við megum ekki koma í veg fyrir að einkaaðilar geti með einhverjum hætti komið að þessum verkefnum.

Áfram um þetta. Mig langar að ræða verðskrárnar og í framhaldi af þeim orðaskiptum sem ég átti við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon. Það er alveg óumdeilt að rafmagnsverð hér er hagstætt og mér þykir beinlínis rangt að halda öðru fram. Auðvitað vilja menn kannski alltaf að hluturinn sé enn þá ódýrari en það er mjög hagstætt raforkuverð í landinu og ég vara alveg eindregið við því að við förum að skattleggja þetta eitthvað sérstaklega, sérstaklega þegar um það er að ræða að ég mundi nú ekki skilja alveg hver rökin yrðu fyrir því þegar við erum að tala um þessa grænu orku sem við höfum hérna í landinu.

Í því kerfi sem við erum búin að koma okkur upp er samt ákveðið flækjustig í verðskránni. Þó hafa orkufyrirtækin reynt eins og þau geta að hafa hana sem einfaldasta. En vegna þess að hluti af notendum notar raforku til húshitunar flækist mjög hjá ákveðnum dreifiveitum reikningagerð. Það er ekki talað um það sérstaklega í skýrslunni. Alla vega sé ég það ekki. En ég vil benda ráðherranum á það, hæstv. ráðherra Össuri Skarphéðinssyni, og eins vil ég beina því til hæstv. fjármálaráðherra Árna M. Mathiesens að það er ekki nógu gott að um tvö virðisaukaskattstig sé að ræða hvað þessa vöru varðar. Við erum annars vegar með virðisaukaskatt á húshitun sem er eitthvert ákveðið prósent og svo erum við með virðisaukaskatt á almenna notkun sem er eitthvað annað. Þetta flækir alla reikningagerð verulega og eykur bara kostnað hjá notendum. Ég átta mig ekki á hvaða röksemd er fyrir þessu, sérstaklega út af því að þetta er eiginlega bara eitthvert nýtt virðisaukaskattstig inni í skattkerfinu sem er í raun alveg óþarfi að hafa. Ég held að það væri ágæt hreinsun að laga það til og ég held að það mundi gleðja mjög marga notendur, sérstaklega þá sem þurfa að búa við að raforka til húshitunar er dýr vegna þess að þeir þurfa að keyra öll sín hús á rafmagni og við vitum að það er dýrara en að gera það með heitu vatni. Mér fyndist að svona aðgerð væri mjög til að gleðja það fólk.

Í orkuspá, sem nú er orðin verkefni Landsnets en var áður á vegum Orkustofnunar, er að finna margar áhugaverðar upplýsingar og það er alveg rétt sem fram hefur komið að þar er ekki gert ráð fyrir öðrum þeim stórvirkjunum en þegar er búið að ákveða að fara í, enda væri náttúrlega ekkert vit í spálíkönum að vera með einhverja hluti sem eru ekki komnir á teikniborð almennilega og væri ekkert gagn að slíkum spám. Þar sýnist mér nú samt sem áður að — eða það væri fróðlegt að vita hver skoðun hæstv. ráðherra er á því að ef draga fer úr ásókn á ákveðin svæði, ef dregið verður úr ásókn á ákveðin svæði, ef til dæmis Reykjavíkurborg hættir við þau áform að fara í Bitruvirkjun og ef það kæmi upp að menn mundu líta með öðrum hætti á Þjórsá — nú er ég alls ekki að mæla með slíku. Ég er bara að benda á þetta — ef svo yrði, hvaða áhrif gæti það hugsanlega haft á þau áform sem þegar eru uppi um uppbyggingu stóriðju í Helguvík hvað varðar þessa spá, hvort einhver hætta sé á því þá að farið verði að abbast upp á almenna notkun í landinu. Ég veit að hæstv. ráðherra getur ekki svarað þessu kannski hér einn, tveir og þrír. En þetta er kannski umhugsunarefni og væri fróðlegt að fá svör við svona þegar við förum að ræða orkumálin betur hér síðar.

Eins langar mig að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra um djúpborunarverkefni sem er talað um í skýrslunni og ég held að mönnum hljóti að þykja mjög áhugavert, hvort hann telji ef við horfum á tímaásinn að það sé ekki töluvert í það að þau verkefni verði þess eðlis að við getum nýtt okkur niðurstöðurnar.

Mig langar líka að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra um rammaáætlun 1 og 2 vegna þess að fram kemur að það sé frekar verið að horfa til jarðvarma í rammaáætlun 2. En rammaáætlun 1 liggur fyrir og það liggur líka fyrir í þeirri áætlun að það er búið að raða verkefnum með ákveðnum hætti þar. Mér hefur þótt menn á hinu háa Alþingi heldur vera ósammála eða ósamkvæmir sjálfum sér þegar kemur að tali um rammaáætlun. Mér þykja hv. þingmenn Vinstri grænna tala um að rammaáætlun 2 muni leiða mikinn sannleik í ljós. En ég bendi þá á að í rammaáætlun 1 voru til dæmis virkjunaráform í neðri Þjórsá efst á blaði hvernig sem horft er á málið. Ég velti því fyrir mér hvað hæstv. iðnaðarráðherra þyki um þennan þátt málsins.

Eins langar mig að benda á að í skýrslunni — og það finnst mér mikilvægt út af því sem við vorum að tala um í morgun um atvinnugrein sem heitir stóriðja sem virðist vera sérstaklega óvinsæl sem slík. Mig langar að benda á að það kemur fram að umhverfisáhrif af virkjunum, stórum virkjunum, þegar menn horfa á þau þá þýðir ekkert að horfa á litla virkjun hinu megin heldur verða menn að horfa á stærðina að því leyti til að margföldunin þýðir ekkert endilega að það sé verra heldur þvert á móti jafnvel. Þá spyr ég og mig langar að fá skoðun hæstv. iðnaðarráðherra á því: Ef við tökum atvinnustarfsemi, mengandi smáiðnað, er mengandi smáiðnaður sem kannski er undir minna eftirliti en stóriðnaður, er hann betri að hans áliti (Forseti hringir.) en stóriðnaður?