135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

raforkumálefni.

311. mál
[17:25]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég fullvissa hv. þingmann um að ég hef ekkert á móti stórum vinnustöðum. Þvert á móti hefur þessi ríkisstjórn einmitt verið að reyna að skapa skilyrði fyrir því að laða hingað til lands stóra vinnustaði sem vinna á grundvelli þess sem má alveg skilgreina sem orkufreka stóriðju. Hún er þó allt annars eðlis en sú stóriðja sem við höfum í landinu núna. Ég vísa þá til þess að ríkisstjórnin hefur verið að reyna að greiða fyrir því að hingað komi fyrirtæki sem framleiða t.d. íhluti í ýmiss konar sólarrafhlöður. Sömuleiðis liggur fyrir að það er vaxandi áhugi fyrirtækja, sem tengjast gagnaverum af mörgum ástæðum sem ég ætla ekki að rekja hér, til þess að slá tjaldhælum sínum í íslenska jörðu. Ég vona að við fáum fyrstu fregnir af því fyrr en seinna.

Ég er því þeirrar skoðunar að fram undan sé tímabil þar sem mikil eftirspurn verður eftir íslenskri orku, ekki bara af því að hún er ódýr — hún fer sem betur hækkandi — heldur vegna eðlis hennar. Hún er eðlisólík obba þeirrar orku sem er til reiðu t.d. annars staðar í Evrópu og í Bandaríkjunum, ég tala nú ekki um í Asíu. Hún er græn og hún er endurnýjanleg. Það er þessi tegund af orku sem skapar mörgum nútímalegum fyrirtækjum sem starfa innan hátæknigeirans samkeppnisforskot. Menn selja bókstaflega vöru sína og þjónustu út á að hún er framleidd eða drifin af orkulindum sem teljast samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum endurnýjanlegar og grænar. Þetta er okkar samkeppnisforskot.

Þess vegna segi ég það líka í fyllstu einlægni við hv. þingmann að ég held að við eigum ekki að hrapa að því að afhenda alla okkar orku til einnar atvinnugreinar. Ég er ekki hræddur við að bíða töluvert í þeim efnum. Ég veit það sem iðnaðarráðherra að eftirspurnin fer bara vaxandi og verðið líka.