135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

raforkumálefni.

311. mál
[17:30]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa skýrslu og þá umræðu sem hér hefur átt sér stað og ágæta framsöguræðu hæstv. iðnaðarráðherra. Það er auðvitað alltaf stórmál í þinginu þegar rætt er um raforkumálefni og kannski hefur um engan málaflokk verið jafnmikið rætt á Alþingi Íslendinga og í íslensku samfélagi á síðustu árum og orkumál, stóriðjumál, þannig að þau hafa fengið ærinn tíma bæði á hinu háa Alþingi og í samfélaginu. Það er kannski merkilegt að hugsa um hvar t.d. stóriðjuverin standa, álverin, sem stundum er teiknað upp að standi í hverjum einasta firði á Íslandi að þau eru í dag aðeins á þremur stöðum, í Straumsvík, Hvalfirði og svo á Reyðarfirði. Menn hafa hugsað um nýja staði og verið að undirbúa. Heimamenn eru áfjáðir bæði í Helguvík, Húsavík og svo í Þorlákshöfn.

Umræðan hefur verið dálítið máluð tilfinningum og pólitískum áróðri. Þetta hefur verið hin blinda umræða pólitískra átaka og heittrúnaðar þannig að það er engin spurning í mínum huga núna að allir ábyrgir stjórnmálamenn geta sagt sem svo þegar þeir horfa á stöðu þjóðarbúsins að þessi mikla orkuauðlind Íslendinga, hið hreina vatn og jarðhitinn, gerir það nú að verkum að við erum betur staddir til að mæta áföllum þjóðarbúsins. Ætli þetta sé ekki fyrsta árið, 2008, sem gjaldeyristekjur verða t.d. meiri af áli en af sjávarafurðum. Það kemur til með að hjálpa hæstv. ríkisstjórn í þeim vanda sem hún stendur nú í frammi fyrir atvinnulífinu. Þetta vildi ég láta koma fram.

Svo tek ég auðvitað undir það að tímarnir breytast og mennirnir með. Margt í þessari umræðu hefur breyst á stuttum tíma og mörg þau efni sem hæstv. iðnaðarráðherra ræddi í þessari skýrslu og aðrir hafa komið inn á orka tvímælis og við höfum séð miklar viðhorfsbreytingar. Það er engin spurning að ég get tekið undir það með hæstv. iðnaðarráðherra að samkeppni á markaði er ekki virt og Íslendingar hafa í sjálfu sér sennilega lítið hugsað um þá samkeppni og engin spurning um þessa fámennu þjóð að smásalarnir eru of fáir eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra.

Hins vegar get ég tekið undir með hæstv. ráðherra. Það er mikilvægt að nýta orkuna betur og við eigum mikil verkefni eins og kom fram í ræðu hans við að styrkja landsnetið. Þar bíða mikil og stór verkefni hvað varðar flutningskerfið sem er orðið gamalt. Hitt er sennilega alveg ljóst að Íslendingar, bæði heimili og fyrirtæki, gætu sparað mikla orku. Það er verðugt verkefni að fara vel með orkuna og ég hygg að heimilin hafi þróast þannig að ljósin logi, við eyðum töluvert miklu í orku og gætum þar séð mikinn árangur.

Maður finnur það að þegar þessi málefni komast til tals er titringur í þessum sal. Það eru átök á milli stjórnarflokkanna út af orkumálum og orkunýtingu. Samfylkingin er þar í dálítið erfiðum málum, ekki síst vegna þess að hún lofaði þjóðinni stóriðjustoppi og talaði fjálglega um hið fagra Ísland. Sjálfstæðisflokkurinn vill hins vegar fara nokkuð geyst hvað þetta varðar.

Við framsóknarmenn höfum lengi komið að landsmálum og auðvitað staðið fyrir mörgu því sem hefur verið að þróast á Íslandi. Við erum nýtingarmenn en leggjum auðvitað mikla áherslu á hin fjölþættu tækifæri íslensks samfélags á mörgum sviðum. Sem betur fer eru tækifærin stærri og meiri á mörgum öðrum sviðum en var fyrir 10 eða 12 árum.

Ríkisstjórnin hefur ekki komið sér saman um stefnu í loftslagsmálum. Ég hygg að í síðustu viku — og kannski hefur það gerst í dag, ég veit ekki — hafi hún ætlað að komast að niðurstöðu. Það er nú svo að stjórnarflokkarnir ganga ekki samstiga til leiks þegar að þessum málum er komið eins og ég hef getið hér um. Umhverfisráðherra vill taka tillit til sérstöðu Íslands þegar um flugsamgöngur er að ræða en vill ekki horfa til þeirrar sérstöðu sem við getum lagt heimilum til með nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa.

Það er engin spurning í huga okkar framsóknarmanna að Íslendingar eru þó svo lánsamir að hafa aðgang að miklum vatnsauðlindum, hreinu drykkjarvatni, kröftugu vatnsafli og kraumandi jarðhita. Okkur hefur tekist að nýta þessar auðlindir skynsamlega og nú þegar Evrópusambandið setur sér markmið um meira en tvöföldun á hlut endurnýjanlegrar orku, upp í 20%, erum við Íslendingar sennilega óðum að nálgast 80%. Ísland er fyrirmyndarland, hefur staðið vel að málum sínum og er fremsta þjóð heimsins í að nýta endurnýjanlegar orkuauðlindir. Hvað sem menn hrópa hér í pólitíkinni og fordæma erum við nú þarna þrátt fyrir allt í fremstu röð.

Ég get tekið undir að tímarnir breytast. Þeir breytast í hugum landsmanna og á vettvangi stjórnmálanna. Af því að hér er rætt um margt í þessari skýrslu vil ég auðvitað segja sem stjórnmálamaður, vegna þeirrar umræðu sem hefur átt sér stað um mörg atriði, að við getum horfið aftur í tímann og hugsað um það þegar enginn mótmælti því að það ætti að virkja á Eyjabökkum, leiða orkuna sunnan jökla í gegnum hið fagra Suðurlandsundirlendi alla leið á Keilisnes til að hafa álver þar. Því mótmælti enginn á þeim tíma. Hugsið ykkur ef við hefðum eyðilagt þá mynd af hinum mikla jöklaþjóðgarði, Vatnajökulsþjóðgarði, og farið þá leið. Sem betur fer varð niðurstaðan önnur. Tíminn vinnur nefnilega með okkur í mörgum málum.

Alveg eins væri í mínum huga fjarstæða ef okkur dytti í hug að leggja byggðalínu þvert yfir miðhálendi Íslands, fara norður Sprengisand og með jöklum til að búa til byggðalínu í dag. Ég tel það ekki koma til greina. Menn þurfa að varðveita ýmislegt sem er ósnortið því að í því liggja auðlindir í hugum okkar framsóknarmanna.

Svo er með þetta mikla rafmagn sem við verðum líka að hugsa um þar sem við leiðum það um. Þá má það hvorki skaða menn né skepnur. Rafmagnið hefur mikil áhrif. Við sjáum það þar sem hinar miklu línur eru leiddar nálægt bæjum, ef þær fara yfir skóglendi vaxa trén ekki. Það eru margar nýjar upplýsingar til hvað þetta varðar sem voru ekki til fyrir nokkrum árum.

Viðhorfin hafa sem betur fer breyst og ég heyri náttúrlega að þau halda áfram að breytast á mörgum sviðum. Ég fagnaði því á sínum tíma þegar menn hurfu frá Norðlingaölduveitu og Þjórsárverum sem hefði haft mikil átök í för með sér. Menn deila um neðri hluta Þjórsár sem mig minnir að vinstri grænir hafi talað fyrir hér þegar þeir voru í baráttunni gegn Þjórsárverum ef ég man þetta rétt. Ég ætla ekki að deila um það en svona breytast viðhorfin og núna talar formaður þeirra fjálglega um Búðarhálsvirkjun í stað neðri hluta Þjórsár. Í þessu öllu eru miklar tilfinningar sem ráða för og viðhorfin breytast hjá öllum.

Ég sé það t.d. á öllum þeim línum sem búið er að leiða frá Þjórsá yfir Hellisheiði og þeim virkjunum sem þar eru. Auðvitað er þetta ekkert fagurt, ég tala nú ekki um þegar línurnar eru illa farnar og ekki hirtar eins og hjá Landsvirkjun nú orðið á Hellisheiði. Þó ætla ég að virða Landsvirkjun fyrir það að hún gengur vel um sín svæði. Ég get tekið undir það sem stjórnmálamaður hvað orkuna varðar. Við þurfum að fara vel með hana. Ég tek undir með hæstv. iðnaðarráðherra að auðvitað geta beðið okkar ný tækifæri í netþjónabúum og alls konar öðrum verkefnum þar sem við seljum orkuna okkar dýrar. Við eigum hana ekkert ótakmarkaða frekar en aðrir.

Ég vil svo segja að við framsóknarmenn höfum stutt það að aðskilja eignarhald á samkeppnis- og einkaleyfisþáttum á raforkumarkaði. Ég held að ég muni það rétt að í fyrsta frumvarpi að raforkulögum hafi verið kveðið á um þetta en síðar fallið frá því sökum þess að mönnum fannst bratt að ganga lengra í þá átt en raforkutilskipun Evrópusambandsins kvað á um. Því var látið nægja að fylgja tilskipun Evrópusambandsins sem kvað á um bókstaflegan aðskilnað þessara þátta. Ég get hins vegar lýst því yfir að við framsóknarmenn styðjum fullan aðskilnað eignarhalds á samkeppnis- og einkaleyfisþáttum á raforkumarkaðnum og ég heyri að hæstv. ráðherra er sömu skoðunar.

Síðan er auðvitað deilt um raforkuverð. Það er engin spurning í mínum huga að raunlækkun á raforkuverði er m.a. til komin vegna raforkusölu til stóriðju eins og margoft hefur komið fram í þessu þjóðfélagi. Góð arðsemi hefur enda verið af raforkusölu til stóriðju og hafa þessi viðskipti bætt hag viðkomandi orkufyrirtækja þrátt fyrir hinar miklu deilur sem ég hef hér farið yfir um þessi mál.

Ég vil í rauninni segja að sú skýrsla sem hér er lögð fram er mikið pólitískt verkefni. Það liggur í þeim upplýsingum sem hér koma fyrir til þess að móta stefnu og fara yfir mjög viðkvæm og umdeild mál.

Síðan er þetta með eignarhaldið á auðlindunum, það er annað og stórt mál sem við þekkjum úr þingumræðunni og verður hér til umræðu á næstunni. Ég fagna því auðvitað að frumvarp hæstv. iðnaðarráðherra sé á leiðinni inn í þing, sé laust úr Sjálfstæðisflokknum. Ég held að það sé enn ekki komið inn en mér er sagt að orkufrumvarpið sé á leiðinni og það kallar á aðra og meiri umræðu. Ég vil segja við þessa umræðu að ég hygg að þegar storminum linni og þegar menn fari yfir stöðuna muni menn verða að viðurkenna að bæði fyrrverandi ríkisstjórn og stjórnarflokkar síðustu 12 árin hafa auðvitað staðið mjög vel að þessum málum á mörgum sviðum og þess vegna tekur hæstv. iðnaðarráðherra eðlilega við góðu búi á mörgum sviðum sem gefur Íslendingum tækifæri. Kannski verður það svo að þegar harðnar í heiminum og straumar þungrar kreppu leita hingað verðum við fyrst og fremst að hugsa um okkar auðlindir.

Við stöndum frammi fyrir miklum vanda í landinu. Loðnubrestur blasir við. Vonandi greiðist úr því. Við höfum séð hvernig sjávarbyggðirnar hafa farið vegna niðurskurðar á þorskstofni. Ég hygg að Austurland sé öðruvísi statt núna vegna Kárahnjúka og álvers á Reyðarfirði þó að þetta muni koma af fullum þunga á það byggðarlag. Ríkisstjórnin stendur frammi fyrir nógu miklum vanda sem hún er ekki með neinar tillögur um að leysa gagnvart þeim fyrirtækjum sem verða núna fyrir miklum skaða út af loðnubrestinum. Vegna þess hvernig við höfum staðið að þessum málum er vandi ríkisstjórnarinnar, þótt hann sé stór, ekki jafnmikill og hann hefði verið ef menn hefðu haldið að sér höndum.

Síðan er hitt sem ég veit að hæstv. iðnaðarráðherra getur tekið undir með mér, vegna þróunar í virkjunum og orkumálum hér á síðustu árum er til alveg gríðarleg þekking á Íslandi sem er gullnáma og hann hefur margrætt um. Þessi þekking væri (Forseti hringir.) ekki til í landinu nema af því að menn hafa staðið hér í miklum verkefnum fyrir íslenska þjóð og er auðugri fyrir bragðið.