135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

raforkumálefni.

311. mál
[17:45]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt sem hv. þm. Guðni Ágústsson sagði, að það eru gríðarleg verðmæti fólgin í þeirri þekkingu og reynslu sem orðið hefur til í orkuiðnaðinum. Það gildir bæði um vatnsaflið og jarðhitann. En við þurfum að hugsa til þess að það tekur að sneyðast um orku- eða virkjunarkosti á landinu.

Eins og hv. þingmaður sagði breytast viðhorf manna með tímanum. Það leiðir til þess að jafnvel þeir sem hafa áður í þessum sölum fagnað tilteknum virkjunarhugmyndum gera það ekki í dag. Ég áfellist þá ekki fyrir það. Allt breytist með breyttum viðhorfum í tímans rás. Viðhorf hv. þingmanns hafa breyst. Viðhorf mín hafa breyst.

Við þurfum að nýta okkur þessa þekkingu, nýta okkur þessa miklu reynslu í nýjum verkefnum utan landsteina. Ég hef sannfærst um að virkileg eftirspurn er eftir þessari reynslu, bæði varðandi jarðhita og vatnsaflsiðnað. Það hefur hins vegar orðið hlutskipti okkar Íslendinga að reyna að koma möguleikum jarðorkunnar á radar stórþjóðanna. Þegar ég var á fundi með framkvæmdastjóra orkumála Evrópusambandsins fyrir nokkrum vikum kom í ljós að í hinni miklu áætlun Evrópusambandsins, sem sumir hafa nefnt í dag, um það að auka hlut endurnýjanlegrar orku, er jarðhiti ekki nefndur. Menn hafa ekki komið auga á þann möguleika.

Það er jafnframt rétt sem hv. þingmaður sagði um að Íslendingar gengju ekki nægilega vel um orku sína. Þeir bruðla of mikið með orku. Við þurfum, þrátt fyrir alla þá orkuauðlegð sem við höfum yfir að ráða, að hvetja til og ýta undir orkusparnað og orkunýtni. Eitt af þeim verkefnum sem ég tók í arf frá Framsóknarflokknum er á því sviði.