135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

raforkumálefni.

311. mál
[18:14]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa góðu og yfirgripsmiklu skýrslu sem veitir góða innsýn í stöðuna eins og hún er. Hún gefur okkur líka nokkrar vísbendingar um framtíðina á þessu sviði. Menn hafa komið býsna víða við í dag, rætt einstakar virkjanir og afl þeirra og einnig samkeppnishlutann eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson gerði á undan mér. Það þykir mér afar áhugaverður þáttur í þessu og tel margt til þess vinnandi að við höldum áfram að þróa raforkumarkaðinn með þeim hætti að samkeppnin verði raunveruleg, alla vega eigum við að gera okkar ýtrasta til að reyna að koma því svo fyrir. En mér þótti það jafnframt áhugavert sem hv. þm. Ólöf Nordal sagði — ég held ég fari rétt með að það hafi verið hún — að hún teldi að meiri líkur væru á að slík samkeppni yrði í framleiðsluhlutanum en í söluhlutanum. Það þykir mér áhugavert en þetta á tíminn eftir að leiða í ljós. Við eigum eftir að ræða þetta betur þegar nýtt frumvarp um orkumál, sem hæstv. iðnaðarráðherra flytur, verður rætt í þinginu.

Virðulegi forseti. Í skýrslunni er fjölmargt áhugavert. Eitt af því er samanburðurinn sem gerður er við Evrópusambandið og fleiri aðila, hvað við Íslendingar erum rík af auðlindum sem gefa endurnýjanlega orku. Þetta sér maður t.d. í því, og það sést líka í skýrslunni, að við erum með mjög hátt öryggi í afhendingu og búum býsna vel, erum með raforkukerfi á heimsmælikvarða, og þá ekki síst hvað það varðar að orkan er að mestu leyti endurnýjanleg.

Á bls. 14, þar sem farið er vel yfir hinn nýja orkupakka Evrópusambandsins, sem verið er að fjalla um, eru dregin fram nokkur markmið, t.d. er eitt markmiðið hjá Evrópusambandinu að auka hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í heildarnotkun sambandsins, að það hlutfall verði 20% árið 2020. Á Íslandi búum við svo vel að hlutfallið er nú þegar miklu mun hærra — við megum ekki gleyma því að við búum vel hvað þessa þætti varðar. Einnig má sjá mjög áhugaverðan samanburð á bls. 31. Árið 2004 voru 16% af raforku í ríkjum Evrópusambandsins unnin með endurnýjanlegum orkugjöfum en sambærilegt hlutfall hér á landi það ár var 99,95%. Ég held að hærra sé ekki hægt að komast.

Það má líka draga það fram í þessari umræðu að nágrannaríki okkar, eins og Svíþjóð, eru enn að nota kjarnorku við raforkuframleiðslu sína. Nú er rætt um það í Eystrasaltsríkjunum að þar verði byggt nýtt kjarnorkuver í stað þeirra sem þeir þurfa að loka eftir inngöngu í Evrópusambandið. Í tengslum við inngöngusamninginn eru menn í alvöru að ræða um það að opna nýtt sameiginlegt kjarnorkuver. Þannig að við búum ansi vel hér á landi.

Virðulegi forseti. Þó að við búum vel þá eru þessar auðlindir alls ekki ótakmarkaðar. Það segi ég með það í huga að það er kannski stærsta verkefni okkar stjórnmálamanna að marka orkupólitík: Hvert við viljum stefna í orkunýtingu? Í hvað viljum við að orkan okkar fari? Þróunin hefur verið sú á undanförnum árum, og það kemur t.d. fram á bls. 29 og 30 í skýrslunni, að stóriðjan er alltaf að taka stærri og stærri hlut af heildarraforkunotkun á Íslandi. Ef t.d. Kárahnjúkavirkjun og stækkunin á Grundartanga eru hafðar með er stóriðjan farin að nýta 77%, samkvæmt skýrslunni, af allri raforkunotkun í landinu. Ég tel að við þurfum að staldra við hér. Á sama tíma hafa menn spáð því, og fræðimenn og sérfræðingar okkar á þessu sviði hafa sagt það, og það er varfærnisleg spá, að við getum raunverulega nýtt um 50 teravattstundir. Inni í þeirri spá, í raforkuspánni á bls. 29, er ekki verið að tala um fyrirhugaðar framkvæmdir eins og Helguvík eða Bakka heldur eingöngu þær sem nú er að ljúka, það eru um 16 teravattstundir. Þetta þýðir að þegar því er lokið erum við farin að nýta um þriðjung eða 32% af allri nýtanlegri orku samkvæmt þessari 50 teravattstundaspá.

Ég tel, virðulegi forseti, að við ættum að staldra aðeins við þetta og velta því fyrir okkur á hvaða leið við séum, í hvaða hættu við séum ef við stefnum í að setja öll eggin í sömu körfuna. Ég ætla að fagna því að bæði Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur hafa lýst því yfir að þar vilja menn leita að annars konar kaupendum en þessum klassísku stóriðjukaupendum sem við þekkjum í dag og eiga 77% hlutfall af raforkuframleiðslunni. Nú síðast á föstudaginn sagði Hjörleifur B. Kvaran, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, að þeir séu að selja ansi mikið af orku til álvera og þar sé áhugi á að skoða fleiri kosti. Hann segir að Orkuveita Reykjavíkur telji heppilegt að hafa ekki öll eggin í einni körfu. Áður hefur Landsvirkjun lýst svipaðri stefnumörkun, að þeir vilji líta til nýrra og annars konar kaupenda en nú eru fyrir hjá þeim í stóriðju.

Virðulegi forseti. Ég tel að þetta kalli á það hjá okkur stjórnmálamönnum, og hæstv. iðnaðarráðherra hefur talað í þá veru, að við mörkum orkupólitík, förum yfir það með hvaða hætti við viljum selja raforkuna og til hvers konar starfsemi. Við þurfum að fara að móta framtíðarsýn vegna þess að tíminn vinnur ekki með okkur. Segjum sem svo að stóriðjuáformin sem eru á teikniborðinu verði að veruleika, þá erum við farin að nýta, ef við miðum við þessa 50 teravattstunda spá, meira en helming af allri nýtanlegri orku sem við eigum á Íslandi. Ef við höldum áfram þessu hlutfalli erum við farin að nýta 80% af meira en helmingi nýtanlegrar orku eingöngu til eins konar atvinnustarfsemi. Þessar spurningar, þessir þættir eiga að hvetja okkur til að staldra við og marka okkur stefnu og skoða þetta mjög vel. Eins og ég sagði eru orkufyrirtækin þegar komin inn á þessa braut, þ.e. þau vilja setja eggin í fleiri körfur.

Ég dreg þetta fram til umhugsunar. Ég vil líka geta þess að ég tel kaflann í þessari góðu skýrslu um djúpboranirnar mjög áhugaverðan. Ég held að þar séu veruleg og vonandi mikil sóknarfæri fyrir okkur. Djúpboranirnar geta gefið okkur heilmikla orku umfram þá orku sem við teljum okkur geta nýtt í dag. Það yrði algerlega nýtt svið sem bættist þar inn í og ný orka umfram þá spá sem ég hef sagt frá. Miðað við núverandi borholur í jarðvarma geta djúpborunarholur gefið allt að tíu sinnum meiri orku en venjulegar borholur eins og við þekkjum í dag.

Virðulegi forseti. Tækifærin eru fjölmörg. Enn og aftur þakka ég fyrir þessa góðu skýrslu sem gefur verulega góða innsýn í stöðu mála.