135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

raforkumálefni.

311. mál
[18:45]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi skiptingu flutningskerfisins þá er svar mitt til hv. þingmanns já. Ég er sátt við það og hlynnt því að leitað verði allra leiða til að tryggja örugga orkuafhendingu hvar sem er á landinu. Hins vegar þýðir það ekki að ég sé að skrifa undir hálendislínu því að hana vil ég ekki. Við eigum að gera áætlun um örugga orkuafhendingu, já, en við eigum að gæta umhverfissjónarmiða í því eins og í öðrum áætlunum sem við gerum varðandi orkunýtingu og raforkukerfið okkar.

Varðandi Búðarháls þá er mér nokkuð erfitt að svara spurningu hv. þingmanns. Eftir því sem ég best veit er Búðarhálsvirkjun tilbúin en Landsvirkjun gerir kröfu um að fá að bora göngin það víð að hún geti tekið vatn inn í þau göng sem kæmi úr Skaftárveitu, það þýðir Langisjór svo ég segi: Ég er ekki hlynnt því að Landsvirkjun fái að bora það víð göng að hún geti tekið vatn frá Langasjó eða Skaftárveitu inn í Búðarháls.

Varðandi áform um virkjun neðri hluta Þjórsár þá tengjast þau mér vitanlega ekki Búðarhálsvirkjun á nokkurn hátt. Hins vegar tengist veita við Norðlingaöldu Búðarhálsvirkjun og Landsvirkjun hefur alltaf viljað fá Norðlingaölduveitu vegna þess að hún hefur haldið því fram að Búðarhálsvirkjun verði ekki hagkvæm nema með vatninu sem kæmi frá Norðlingaölduveitu. Ég er andvíg Norðlingaölduveitu og ég hef sagt í þessum ræðustóli í rúm átta ár: Landsvirkjun verður að fara að sleppa takinu á Norðlingaölduveitu. Það er löngu orðið tímabært. Það er ekki fyrr en ég sé það stimplað og skjalfest að Landsvirkjun sé hætt við áform um Norðlingaölduveitu að ég segi: Veitið þá Búðarhálsvirkjun eins og hún er á teikniborðinu ef þið haldið að hún sé hagkvæm. Ef hún er ekki hagkvæm án vatnsins úr Norðlingaölduveitu þá reisum við hana ekki.