135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

raforkumálefni.

311. mál
[18:50]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst hv. þingmaður vera fullneikvæður, satt að segja allt of neikvæður gagnvart þeim möguleikum sem felast í djúpborunum. Ég sé ekki eftir peningunum sem veittir eru til þess verkefnis. Ég tel að þar séu möguleikar til framtíðar ef þeir ganga upp og um það er ekki hægt að fullyrða á þessu stigi. En ég tel að ef þeir ganga upp sé svo mikið í húfi að þetta sé fyllilega réttlætanlegt. Þannig þróast vísindin og þannig þróast samfélagið. Menn finna nýjar leiðir til að nýta auðlindir sem eru ónýttar. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að finna skynsamlegar leiðir til þess.

Í þessu tilviki er um það að ræða að menn fara miklu dýpra en áður hefur verið farið hér á landi. Hins vegar er það ekki tæknilegt vandamál að bora niður á fimm kílómetra dýpi í þessu tilviki. Erlendis bora menn töluvert dýpra og gengur alveg þokkalega. Þarna fara menn niður í annan geim. Þarna eru jarðhitakerfi, þarna eru vatnskerfi sem eru að öllum líkindum þar sem menn eru að freista gæfunnar að þessu sinni, sem eru ótengd þeim sem ofar eru. Það er heldur ekki um það að ræða að verið sé að taka upp meira vatn. Það sem gerist er að vatnið sem er á þessu dýpi er undir hærra hitastigi, undir miklu meiri þrýstingi. Það hefur aðra eðliseiginleika þar, þar sem vísindin kalla „super critical“ sem gerir það að verkum að þegar það ryðst út í borholuna og upp þá er krafturinn miklu meiri, aflið miklu meira og menn geta með þessum hætti fengið allt að tífalt meira magn úr einni holu. Það þýðir að orkan úr þessu væri töluvert ódýrari og, eins og áður sagði, meira magn kæmi úr hverri holu. Það er í sjálfu sér umhverfisvænt vegna þess að þá bora menn færri holur. Ég bið hv. þingmann að þessu leyti til að endurskoða afstöðu sína.