135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

raforkumálefni.

311. mál
[19:09]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt að við breytinguna sem varð 2003 var ekki gert ráð fyrir því að raforkuverð mundi hækka af hennar völdum. Það kemur síðan í ljós að þeir sem höfðu hvað hæst um að það mundi hækka, þ.e. þeir sem reka orkufyrirtæki hér í þéttbýlinu, höfðu rangt fyrir sér, það hefur frekar lækkað þar. Það er rétt hjá hv. þingmanni að að meðaltali hefur það hækkað í dreifbýlinu en að vísu að meðaltali undir breytingum á vísitölu og verðlagi. Hinu skal ég ekki fyrirsynja að það eru dæmi um að þær tölur sem hv. þingmaður nefndi séu réttar. Það er í þeim tilvikum þar sem um er að ræða einstaklinga sem nota raforku til þess að hita híbýli sín. Ástæðan fyrir þessu er auðvitað, eins og mátti lesa á milli orða hv. þingmanns, að það hefur verið misræmi á millum annars vegar orkuverðshækkana og hins vegar niðurgreiðslna, bæði að því er varðar niðurgreiðslu á dreifingu og síðan á orkuverðið sjálft. Þetta gerir það að verkum að þeir einstaklingar sem hita híbýli sín með þessum hætti finna hækkanirnar skarpastar, þær verða mestar þar. Í sumum tilvikum er líka um að ræða einstaklinga sem höfðu einhver sérkjör frá fornu, einkum og sér í lagi einstaka bændur og býli sem höfðu það.

Hitt vil ég svo segja að ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um það eins og ég sagði í ræðu minni í dag að það er nauðsynlegt að taka á flutningskerfinu fyrir vestan. Ef við ætlum að hafa jafnræði gagnvart íbúum landsins verður líka að vera jafnræði um raforkuafhendingu. Það er ekki í dag. Hv. þingmaður gat sérstaklega um þá möguleika sem opnast þegar göng koma á nokkrum stöðum í framtíðinni á Vestfjörðum til viðbótar þeim sem eru og ég vona að það verði til þess að greiða úr vandanum, en ég held að hann verði ekki að fullu leystur nema menn fari bæði í það að stækka þær virkjanir sem þó eru til staðar á Vestfjörðum og líka að setja strengina þar sem álagið er mest, í jörðu.