135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

raforkumálefni.

311. mál
[19:12]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og er að mörgu leyti sammála þeim áherslum sem hann lýsti. Ég tek einnig undir það sem kom fram í lok ræðu hans að það er nauðsynlegt að fara að huga að virkjunarkostum á Vestfjörðum. Það er hægt að virkja þar meira en við höfum gert og það er afar nauðsynlegt að fara úr þeirri kyrrstöðu sem mér finnst hafa verið í orkumálum í fjórðungnum á undanförnum árum og fara að horfa til þeirra kosta sem við virkilega getum nýtt okkur til orkuöflunar. Þeir eru þó nokkrir þó að þeir séu kannski ekki á við stærstu virkjanir sem hægt er að gera annars staðar á landinu, þá eru samt verulega góðir kostir til virkjunar og með nútímatækni og nútímamöguleikum á að flytja orkuna, m.a. að setja hana í jarðstreng þar sem hörðust eru veður, þá tel ég að menn geti virkilega horft til þess að nýta orkuna. Sem dæmi má nefna Hvalá í Ófeigsfirði á Ströndum, þar er vatnasvæði sunnan Drangajökuls sem má nýta með auðveldum hætti. Þar hagar svo til, hæstv. forseti, að landslagið sunnan við Drangajökul er bara berangur með grjóti og mismunandi hörðum hólum, þar er ekki stingandi strá þannig að ekki þurfa menn að gráta umhverfisáhrifin við að lagfæra þar land svo að megi ná meira vatni. Þar er nóg vatnasvæði, menn þurfa bara að vera sammála um að nýta það og væntanlega eru menn það því að þar ekki verisð að valda miklum skaða á náttúrunni miðað við þá nýtingu sem er á henni í dag. Þeir eru sárafáir sem rölta yfir hálendið fyrir sunnan Drangajökul.