135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

raforkumálefni.

311. mál
[19:34]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er eitt sem stundum gleymist í þessari umræðu og það er tilkostnaðurinn við samkeppni, tilkostnaðurinn við að reka mörg kerfi hlið við hlið — þetta fundu Bretar út þegar þeir voru búnir að setja á fót fleiri en eitt símafyrirtæki — tilkostnaðurinn við það að hafa mörg raforkufyrirtæki sem keppa sín í milli. Ég tala nú ekki um þegar búið er að breyta eignarhaldinu, ef það yrði gert, þannig að til sögunnar kæmu aðilar sem tækju arð út úr þessari starfsemi. Allt þetta kostar peninga. Ég minnist þess eftir að hafa lesið skýrslur frá Noregi á tíunda áratugnum þar sem neytendasamtökin norsku kvörtuðu sáran yfir því hvernig arður var háfaður út úr raforkugeiranum, eins og komist var að orði, í milljarðatugavís.

Ég minnist þess að á meðal þeirra sem gagnrýndu breytingarnar einna harðast voru ekki meiri vinstri græn en svo að þeir hétu Friðrik Sophusson, það voru forsvarsmenn í Orkuveitu Reykjavíkur og forsvarsmenn í Hitaveitu Suðurnesja. Allir þessir aðilar vöruðu við þessum breytingum.

Varðandi nýjungarnar, hvað hefur einkennt orkugeirann á Íslandi á undanförnum ekki bara árum heldur áratugum? Það eru geysilegar framfarir, það er geysileg hugmyndagerjun (Gripið fram í.) sem þar hefur verið að verki og … (Gripið fram í.) Vissulega, út af því að menn hafa verið að vinna í þessum málum og reyna að finna nýjar lausnir. Það hefur ekki þurft þessa samkeppni til og ég held og jafnvel segi það við hina ágætu frjálshyggjumenn og trúmenn á markaðinn að menn eigna honum iðulega miklu, miklu stærri hlut en hann á (Forseti hringir.) raunverulega inni.