135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

raforkumálefni.

311. mál
[19:46]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hugsa að hv. þm. Jón Gunnarsson sé miklu betri maður en ég að því leyti að honum er afskaplega umhugað um að við nýtum okkar vistvænu orku heimsbyggðinni til góða. Mér finnst bara dæmið ekki vera svona afskaplega einfalt. Sýnt hefur verið fram á að í Bandaríkjunum, svo dæmi sé tekið, fer drjúgur hluti álframleiðslu heimsins í kók- og pepsídósir og eflaust seven-up líka. Þessi mynd sem er dregin upp er afskaplega einföld. Ég og minn flokkur erum ekki tilbúin að fórna dýrmætum íslenskum náttúruperlum á altari stóriðjunnar án skilyrða vegna þess að þetta eru veruleikinn sem við búum við.

Síðan er hitt varðandi atvinnustefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Ég hugsaði þegar ég heyrði þessa ræðu: Mikið er Sjálfstæðisflokkurinn kominn langt frá uppruna sínum. Sú var tíðin að Sjálfstæðisflokkurinn sagði: Treystum innviði samfélagsins og treystum á einstaklinginn, hugvit hans. (Gripið fram í.) Nú er spurt: Ef þið viljið ekki álver, hvað þá? Bæjarútgerð? Hvað vill hv. þingmaður að við nefnum? Að við nefnum verksmiðjurnar sem á að setja á fót?

Menn hafa sett tugi milljarða í fjárfestingu í stóriðju með þá von í brjósti að hún muni skapa þjóðfélaginu arð. Það höfum við sagt þegar við tölum um að treysta innviðina, efla skólakerfið og heilbrigðiskerfið, þ.e. að það er fjárfesting í mannauði og í atvinnulífi til frambúðar.