135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

raforkumálefni.

311. mál
[19:50]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hafði ekki þau orð að álver væru eitthvað sérstaklega óhrein. Ég hef hins vegar miklar efasemdir um þessa fjárfestingu, bæði efnahagslega og með tilliti til þeirra náttúruperla sem við erum að fórna. Það er umhugsunarvert að eftir að Alcoa kynntist ríkisstjórnum Sjálfstæðisflokksins fór fyrirtækið að loka álverum í heimalandi sínu vestan hafs. Hvers vegna? Vegna þess að hér væri verið að bjóða orkuna á svo lágum prís, á slíku bananaverðlagi, að menn fóru að loka álverksmiðjum heima við. Það er þetta sem við erum að reyna að gera, við erum að reyna að vekja þjóðina til vitundar um það andvaraleysi sem einkennt hefur afstöðu ríkisstjórnarinnar til þessara mála.

Við skulum hafa það hugfast, eins og fram kom í umræðunni í dag, að við erum að selja raforkuna til stóriðjunnar á 40–50 kr. kílóvattstundina á sama tíma og við bjóðum almenningi og almennum iðnaði í landinu kílóvattstundina fyrir 12–14 kr. (Gripið fram í: Nei, nei.) Hvað mikið? (Gripið fram í: Það eru bara 3 kr. ...) Ja, ég hélt reyndar að það væri miklu meira en við erum að tala um margfalt verð til annars atvinnureksturs. Við erum að mismuna með þessari verðlagningu, við erum að beina atvinnustarfseminni inn í stóriðjufasa. Þetta er atvinnustefna og þetta er efnahagsstefna sem við gagnrýnum, hv. þingmaður. Og við bjóðum upp á aðra valkosti.

Við bjóðum upp á tillögur í þinginu sem styrkja fjárhag og stöðu sveitarfélaga á landsbyggðinni. Við höfum sett fram tillögur varðandi byggðakvóta í sjávarútvegi. Að bjóða okkur síðan upp á það og Alþingi að við höfum engar lausnir fram að færa aðrar en andstöðu við stóriðju, það er rangt.