135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

raforkumálefni.

311. mál
[19:53]
Hlusta

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvar maður á að grípa niður í þessa síðustu ræðu, þær eru svo sem allar af sama meiði. En hafi Alcoa eða aðrir lokað einhverjum verksmiðjum sínum í útlöndum til að koma með þær hingað þá fagna ég því. Þá höfum við geta boðið aðstæður og verð sem er samkeppnisfært, það er auðvitað þess vegna sem það er. En það er af og frá að það sé gert á einhverri útsölu og það er af og frá að halda einhverju öðru fram en það sé grundvöllur arðsemi á þeim framkvæmdum sem hér fara fram, ég tala ekki um þessa atvinnusköpun.

Í stefnu Vinstri grænna var kafli sem ég sleppti hér áðan. Ég vitna í hann, með leyfi forseta:

„Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill beita sér fyrir því að atvinnulífið þróist í átt til aukinnar fjölbreytni og nýti umhverfi sitt og tækni. Sérstaka áherslu ber að leggja á stuðning við fjölbreytta nýsköpun, vöxt og viðgang lítilla og meðalstórra fyrirtækja.“

Skyldu þau ekki þurfa neina orku, virðulegi forseti? Skyldu þau vera alveg mengunarlaus? Það er eins og annað í tillögum þeirra þegar kemur að þessari umræðu. Þetta er svona froða, það er helst hægt að líkja þessu við froðu. Það er ekkert í þessu, þetta eru falleg orð. Það er það sem ég kalla eftir, þegar við ræðum um þessi mál, að hér á hinu háa Alþingi gerum við það af þeirri ábyrgð og festu að fólkið í landinu fái trú á okkur. Að við séum að tala fyrir alvöruatvinnuuppbyggingu til að mæta þeirri byggðaþróun og byggðaröskun sem verið hefur og til að skjóta styrkari stoðum undir atvinnulífið sem vissulega er ekki vanþörf á.