135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

skattamál.

[13:38]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Það er ekki hægt annað en klóra sér í höfðinu yfir stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í skattamálum, stefnu sem gengur út á það að hækka skatta þrátt fyrir að það sé auðvitað gömul saga og ný að lágir skattar hafa í för með sér meiri ábata fyrir fólk og fyrirtæki en þar sem skattbyrði er þung. Þetta sýna allar mælingar og allir taka undir nema hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og hans ágæti flokkur sem vill m.a. í því árferði sem nú ríkir í íslensku efnahagslífi frekar hækka skatta en lækka þá.

Við í Sjálfstæðisflokknum erum ekki sammála þessari stefnu og það sem meira er, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson benti á, þá kom út bók í gær sem heitir Skattalækkanir til kjarabóta þar sem fræðimenn á þessu sviði komast allir að þeirri niðurstöðu að lágir skattar hafi í för með sér ábata fyrir fólkið í landinu, fyrir atvinnulífið og þjóðfélögin öll. (Gripið fram í.) Það eru nóbelsverðlaunahafar í hagfræði sem hafa komist að þessari niðurstöðu og einir 10 hagfræðingar og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon getur reynt að gera lítið úr þeim en þetta eru niðurstöður sem hv. þingmaður getur ekki dregið í efa. (Gripið fram í.)

Við hljótum að fagna því að ríkisstjórnin hafi í tengslum við gerð kjarasamninga ákveðið að lækka tekjuskatt á fyrirtæki úr 18% í 15 og ég vonast til að þetta sé einungis fyrsta skrefið í skattalækkunarferli núverandi ríkisstjórnar. Ég efast reyndar ekki um að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sýpur hveljur þegar hann heyrir mig nefna þetta en það væri sannarlega þjóðinni og landsmönnum öllum til bóta ef ríkisstjórnin réðist í frekari skattalækkanir. (Forseti hringir.) Og úr því að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir gerir hér hróp að mér þá tel ég að það ætti að gera þessa nýútkomnu bók, Skattalækkanir til kjarabóta, að skyldulesningu (Forseti hringir.) fyrir þingmenn Vinstri grænna.