135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

skattamál.

[13:43]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Það er grundvallaratriði að hér á landi sé öflugt og framsækið atvinnulíf sem heldur uppi atvinnu og skapar tekjur fyrir samfélagið og það er ein meginforsenda þess að við getum haldið uppi öflugu velferðarkerfi, eflt það og styrkt. Það eru gömul sannindi og ný. Það er líka afar mikilvægt að íslenskt atvinnulíf sé samkeppnishæft gagnvart atvinnulífi í öðrum löndum. Skattumhverfi hér á landi má ekki vera með þeim hætti að atvinnufyrirtæki sjái sér jafnvel hag í því að fara með starfsemi sína úr landi þangað sem skattumhverfið er hagstæðara. Það er eitt af grundvallarhlutverkum stjórnvalda að sjá svo til að starfsumhverfi atvinnulífsins sé með þeim hætti að það geti vaxið og dafnað og skattumhverfið er mikilvægur hluti af því og þess vegna tel ég það jákvætt skref að lækka tekjuskatt lögaðila eins og nú hefur verið ákveðið. Það er til þess fallið að styrkja stöðu atvinnufyrirtækjanna og er í þágu atvinnulífsins. Það er mikilvægt en það er einnig mikið hagsmunamál fyrir atvinnustigið í landinu og fyrir starfsfólk allra þessara fyrirtækja

Reynslan af síðustu lækkun tekjuskatta lögaðila hér á landi er í samræmi við þetta. Reynslan hvað varðar tekjur ríkissjóðs eftir síðustu tekjuskattslækkun er sú að skatttekjurnar jukust til muna og það er í samræmi við reynslu annarra þjóða sem hafa farið svipaðar leiðir. Það er því enginn sannleikur í því sem margir hafa haldið fram að lækkaðar skattálögur sá fyrirtæki þýði samsvarandi samdrátt í tekjum fyrir ríkissjóð. Það er ekki þannig og það hefur sýnt sig.

Í lokin vil ég segja það, hæstv. forseti, að afstaða vinstri grænna í þessu máli kemur mér ekki á óvart. Það er gömul saga og ný.