135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

úthlutun byggðakvóta.

[14:08]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér talaði greinilega maður sem ekki nokkru sinni hefur setið í ráðuneyti þar sem peningum hefur verið deilt út.

Virðulegi forseti. Það er líka svolítið sérkennilegt þegar hv. þingmaður talar eins og hann gerði áðan. Þannig er mál með vexti að á síðasta þingi var flutt frumvarp — af þeim sem hér stendur — um breytingar á lögum um byggðakvóta. Það var gert í ríkisstjórn þar sem við sátum saman, ég og hv. þm. Guðni Ágústsson. Þetta var stjórnarfrumvarp sem hv. þingmaður stóð að. Það mál fékk afar góða efnislega meðhöndlun í þinginu. Eftir að fram höfðu komið efnislegar ábendingar frá ýmsum aðilum, m.a. þingmönnum og þeim sem störfuðu í sjávarútvegsnefnd sem þá sat varð niðurstaðan sú að talsverðar breytingar voru gerðar á því frumvarpi. Þannig breytt fór frumvarpið inn í Alþingi og það frumvarp var síðan samþykkt samhljóða með öllum greiddum atkvæðum. Ég tel það dálítið mikið afrek þegar um er að ræða svo umdeilt mál sem sjávarútvegsmálin eru og sérstaklega þegar um er að ræða byggðakvóta sem er einstaklega umdeildur þáttur í sjávarútvegsmálum okkar. Ég man sérstaklega að hv. þm. Guðni Ágústsson hefur að sjálfsögðu greitt atkvæði með þessu frumvarpi sem hann auðvitað bar líka ábyrgð á. Ég tel þess vegna enga ástæðu til að taka þessi mál sem við hv. þingmaður unnum að á sínum tíma og gerðum síðan að lögum til sérstakrar endurskoðunar núna. Það er ekki komið ár síðan þetta var gert að lögum með þeim hætti sem nú er.

Úthlutun byggðakvótans fer þannig fram að hún fer algerlega eftir efnislegum reglum. Þar á meðal var stuðst við þá reynslu sem hafði fengist í vinnu Byggðastofnunar. Þegar tekin er ákvörðun um það hversu mikið magn fer í tiltekin byggðarlög byggist það á efnislegum reglum sem ráða því. Þess vegna er það stundum breytilegt frá ári til árs hvað hvert byggðarlag fær í sínar hendur af byggðakvóta vegna þess að það ræðst af því hvernig mönnum hefur vegnað, hvort það hefur bæst í kvótann í viðkomandi byggðarlagi, hvort vinnslan hafi aukist, hvort landaður afli hafi aukist.

Ég hef ekki orðið var við mikinn ágreining um það í sjálfu sér hvernig þetta dreifist á milli hinna einstöku byggðarlaga. Við erum þó að tala um yfir 30 byggðarlög eða sveitarfélög sem fá byggðakvóta með einhverjum hætti. Það sem við hv. þm. Guðni Ágústsson gerðum í lagabreytingunni í fyrra var að reyna að skerpa framkvæmd þessara laga og gera þau gagnsærri. Það þýðir t.d. að eftir að við höfum kunngjört hversu mikið magn fer til tiltekinna byggðarlaga hafa byggðarlögin, eða sveitarfélögin í þeirra nafni, möguleika á að gera tillögur um hvernig útfærslu þessa byggðakvóta skuli háttað. Til að auka gagnsæið og tryggja að allt fari fram með stjórnsýslulega réttum hætti eru þessar tillögur settar inn á heimasíðu þannig að allir hafi aðgang að þeim. Auðvitað koma upp mismunandi sjónarmið, það þarf að taka tillit til þeirra, kæruferlið verður bæði greiðara, lengra og gagnsærra. Núna þegar við framkvæmum í fyrsta skipti lögin sem við hv. þm. Guðni Ágústsson höfðum forgöngu um í ríkisstjórn ásamt fleirum tekur þetta auðvitað nokkuð lengri tíma. Engu að síður er það svo að eftir þennan vetur eða nú á þessari stundu er búið að úthluta langmestum hluta þessa byggðakvóta. Fimm sveitarfélög standa út af sem byggir á því að þar hafa komið fram kærur á flestum stigum sem auðvitað tefja úthlutun byggðakvótans.

Ég tel með öðrum orðum, virðulegi forseti, að við séum með gagnsæjar ábyggilegar reglur sem vel er hægt að styðjast við og af þeim ástæðum sé engin ástæða til að breyta í grundvallaratriðum. Þetta er engin handahófsúthlutun sem fer fram við ráðherraborðið, öðru nær. Þetta er byggt á þeim forsendum sem ég var að gera grein fyrir.

Hv. þingmaður spurði mig hvort þær hugmyndir sem formaður Samfylkingarinnar og fleiri gerðu að umtalsefni á fundi norður á Akureyri fyrir skömmu varðandi byggðakvótann hefðu verið ræddar hjá ríkisstjórnarflokkunum. Já, formaður Samfylkingarinnar hefur rætt þetta við mig og fleiri fulltrúar Samfylkingarinnar þannig að út af fyrir sig kom þetta sjónarmið þeirra mér ekki á óvart. Þetta var hins vegar hugmynd af þeirra hálfu eins og margoft kom fram, og kom mjög skýrt fram. Mín viðbrögð voru þau að ég taldi skynsamlegt að skoða þessar hugmyndir eins og allar aðrar hugmyndir sem ég veit að eru settar fram af góðum hug. Ég benti hins vegar á að uppi væru praktískir annmarkar. Vandinn við útdeilingu byggðakvótans er ekki sá að búa byggðakvótann til heldur miklu frekar að deila honum út og búa til hinar efnislegu reglur. Ég geri ráð fyrir því að hið sama ætti við hvort sem um væri að ræða útdeilingu gæða á borð við veiðirétt eða útdeilingu gæða á borð við fjármuni.

Ég tel þess vegna, virðulegi forseti, ef ég segi þetta í heild sinni — hv. þingmaður spurði líka um útdeilingu til lengri tíma — að í núgildandi lögum sé sá möguleiki til staðar að deila út byggðakvóta til lengri tíma. Ég held að hv. þingmaður hefði (Forseti hringir.) gott af því að rifja upp þau mál sem við fluttum saman sem ríkisstjórn í fyrra og gerðum sameiginlega að lögum fyrir tæpu ári.