135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

úthlutun byggðakvóta.

[14:27]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Við hér á Alþingi Íslendinga stöndum frammi fyrir því að mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur skilað af sér áliti um að við höfum um langt árabil gert okkur sek um alvarleg mannréttindabrot varðandi grundvallaratvinnugrein íslensku þjóðarinnar með þeirri löggjöf sem við erum ábyrg fyrir að ríki um sjávarútveginn.

Það kemur auðvitað ánægjulega á óvart að Framsóknarflokkurinn skuli hafa verið algjörlega ábyrgðarlaus af öllu því starfi sem tengist kvótakerfi og stjórnun sjávarútvegsins síðustu tíu árin eða rúmlega það. Það er eigi að síður fagnaðarefni ef Framsóknarflokkurinn hefur skipt um kúrs í þessu og er tilbúinn til þess að endurskoða hluti og reyna að bæta úr þeim mistökum sem orðið hafa á þeirri vegferð.

Þar hljóta auðvitað að vera nærtækastar þær aflaheimildir sem við höfum í byggðakvótanum vegna þess að það sem við þurfum augljóslega að gera er að opna með einhverjum hætti aðgang manna að auðlindinni. Það eru engar aflaheimildir sem Alþingi hefur jafnskýr og bein tök á eins og einmitt byggðakvótinn. Þess vegna er eðlilegt að setja fram hugmynd um hvort hægt sé með einhverjum hætti að nota byggðakvótann til þess að mæta þessu áliti þótt ekki væri nema að hluta til sem einn þátt af þeim aðgerðum sem við grípum til í því sambandi.

Það má gera með því að leigja aðgang að heimildunum, eins og við höfum kynnt í Samfylkingunni, til ákveðins tíma í senn og láta það fé sem fyrir það kemur renna til þess að byggja upp atvinnustarfsemi. Helst ætti að byggja upp annars konar atvinnustarfsemi en sjávarútveg í hinum dreifðu byggðum landsins, atvinnu til framtíðar, því að við vitum að enn á störfum eftir að fækka í sjávarútveginum (Forseti hringir.) eins og hefur verið að gerast á síðustu árum. Við skulum ræða það opið hvort það eigi að kvótabinda (Forseti hringir.) það við landshluta, við skipategundir eða setja á það löndunarskyldu, (Forseti hringir.) eða … til að ná fram öðrum markmiðum með byggðakvótanum.