135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

úthlutun byggðakvóta.

[14:32]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Því miður er það orðið einkenni hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra, sem kannski bendir til þess að hann sé í vandræðum, að hefja alltaf útúrsnúning þegar menn ræða málefnalega um hlutina. Vandamál dagsins eru verkefni dagsins. Það liggur fyrir að í þessu kerfi, sem hann heldur utan um, eru vandamál. Ég var ráðherra í átta ár, ég úthlutaði aldrei mjólkurkvóta eða sauðfjárrétti, ég var ekki að úthluta eða deila peningum. Þetta var allt saman fjarlægt frá ráðuneytinu, stjórnsýsla dagsins kallar á það. Nú hefur hæstv. ráðherra það ráðuneyti á sinni könnu, kannski getur hann lært af þeim vinnubrögðum.

Ekki er enn búið að úthluta byggðakvóta fyrir síðasta ár — hluti af því er eftir enn. Hér hefur síðan verið hafin umræða af hæstv. utanríkisráðherra um að fara með þetta í peningalegan sjóð, og hæstv. sjávarútvegsráðherra segir að þau hafi rætt það sín á milli og það geti vel komið til greina, þannig að málið er í miklu óefni eins og hæstv. ráðherra talar. Þegar ástandið er svona vil ég segja við hv. þm. Lúðvík Bergvinsson: Það á ekki að vera til sjóðasukk og reglur Byggðastofnunar, eins og þær voru, voru nefnilega góðar. Þegar menn fara að fara yfir kerfið, þegar umboðsmaður situr með heilu málin, þegar sveitarstjórnir sitja sveittar að rífast yfir úthlutun ráðherrans og hvergi er samstaða um neitt verða menn auðvitað að endurskoða sína hluti. Það verður hæstv. ráðherra að gera án þess að vera með eilífan útúrsnúning þó að menn taki upp heit mál og spyrji hann nokkurra spurninga. Það er óþolandi framkoma.

Ég verð að segja fyrir mig að menn byggðu á vinnubrögðum Byggðastofnunar upp réttlátt kerfi. Menn voru að úthluta til fimm ára í senn. Menn voru að byggja upp fyrirtæki í litlum fjarlægum sjávarþorpum sem reyndust vel. Nú er þetta allt í óvissu og óefni. Ef lög reynast illa í framkvæmdinni, þó að þau hafi verið sett í gær eða í fyrradag, þarf auðvitað að fara yfir þau aftur með nýjum hætti. Við eigum ekki að þurfa að sitja uppi með svo flókin lög að eilífar kærur og deilur séu á milli manna. Réttlæti á að ráða för.