135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

úthlutun byggðakvóta.

[14:34]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram. Það er auðvitað athyglisvert að þó að menn hafi haft upp ýmsa gagnrýni varðandi þennan byggðakvóta komu ekki fram af hálfu stjórnarandstöðunnar neinar tillögur um breytingar á framkvæmd byggðakvótans. Það var bara þannig. Það er kannski ekki við því að búast heldur vegna þess, virðulegi forseti, að ekki er nema tæplega ár síðan að þingheimur allur samþykkti þau lög sem nú er verið að vinna eftir.

Hv. þm. Guðni Ágústsson furðaði sig á því að ekki væri búið að deila út öllum byggðakvótanum. Ég fór nákvæmlega yfir það hvers vegna það hefði verið. Það var bara þannig að lögin voru samþykkt rétt fyrir síðustu kosningar. Vinnan fór síðan í gang. Það er verið að opna á möguleika sveitarfélaga og einstaklinga til að hafa aðgang að úthlutun með öðrum hætti en verið hefur og það hefur einfaldlega gert það að verkum að tafsamara hefur verið að láta þessa úthlutun fara fram. Eru menn þá að gagnrýna það? Er það það sem hv. þingmaður er að segja þegar hann segir að við þurfum bara að læra af reynslu og hætta við það sem hefur tafið úthlutunina. Það sem hefur tafið úthlutunina er m.a. að gerðar eru miklu strangari stjórnsýslulegar kröfur en áður var. Er það það sem hv. þm. er að segja að sé að í framkvæmd þessarar úthlutunar? Ég trúi því ekki og ég ætla ekki að ætla hv. þingmanni það.

Hv. þingmaður segir að ég hafi verið með útúrsnúning. Í hverju fólst sá útúrsnúningur? Ég fór einfaldlega yfir það hvernig þessi lög urðu til, hvernig frumvarpinu var breytt í meðförum Alþingis og hvernig úthlutunin hefur síðan gengið fyrir sig. Það var enginn útúrsnúningur í því. Hv. þingmaður verður bara að una því að honum sé mætt þegar hann kemur með einhverja gagnrýni sem lítil innstæða er fyrir og þeirri gagnrýni fylgja engar tillögur heldur bara eitthvert óljóst afturhvarf til fortíðarinnar. Og segja sem svo að Byggðastofnun reddi málunum. Það er að vísu gömul hugsun sem hv. þingmaður tileinkaði sér en ég trúi því að skynsamlegra sé að hafa hér almennar stjórnsýslulegar reglur og úthluta á þeim grundvelli jafnvel þó það taki einhvern lengri tíma.