135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[14:40]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um jafnan rétt og jafna stöðu karla og kvenna. Ég sem fulltrúi Framsóknarflokksins í hv. félags- og tryggingamálanefnd vil lýsa mikilli ánægju með að náðst skuli hafa almenn samstaða um að afgreiða þetta mál í mikilli sátt á milli allra stjórnmálaflokka á þingi. Við framsóknarmenn höfum lagt mikla áherslu á jafnréttismál á undanförnum árum, vorum m.a. forgöngumenn um nýja foreldra- og fæðingarorlofslöggjöf undir forustu Páls Péturssonar á sínum tíma.

Nú, hæstv. forseti, eru kjarasamningar yfirvofandi. Við ræddum mikið í nefndinni um þann löst á samfélagi okkar sem launamunur kynjanna er. Við hljótum því að leggja mikla áherslu á að það frumvarp sem við erum að samþykkja hér þverpólitískt muni leiða til þess að launamunur kynjanna hér í landi muni minnka enn frekar. Ég ber miklar væntingar og vonir til þess enda standa allir stjórnmálaflokkar að þeirri tillögu sem við erum að samþykkja.