135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

flutningur á útgáfu starfsleyfa til landlæknis.

351. mál
[14:47]
Hlusta

Frsm. heilbrn. (Ásta Möller) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti hv. heilbrigðisnefndar um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna flutnings á útgáfu starfsleyfa heilbrigðisstétta frá heilbrigðisráðuneytinu til landlæknis.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund sinn ýmsa aðila sem gerð er grein fyrir í nefndarálitinu.

Frumvarpið miðar að því að flytja útgáfu starfsleyfa til heilbrigðisstétta, ásamt ýmiss konar vottorðaútgáfu sem þeim fylgir, frá heilbrigðisráðuneyti til landlæknis. Að auki eru gerðar lagfæringar og leiðréttingar á nokkrum úreltum ákvæðum laga er frumvarpið tekur til.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að útgáfa starfsleyfa til heilbrigðisstétta falli betur að stjórnsýsluverkefnum stofnunar en ráðuneytis. Flutningur starfsleyfa heilbrigðisstétta yfir til landlæknis sé jafnframt ákjósanlegur út frá sjónarmiðum um réttaröryggi þar sem umsækjandi um starfsleyfi getur borið ákvörðun á lægra stjórnsýslustigi undir æðra stjórnsýslustig með kæru til ráðherra. Þá er um að ræða einföldun á málsmeðferð og styttingu málsmeðferðartíma þar sem ráðuneytið hefur sent flestar umsóknir um starfsleyfi til umsagnar hjá landlækni. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið.

Jafnframt leggur nefndin til tvær breytingar á frumvarpinu sem gerð er grein fyrir í nefndarálitinu og breytingartillögum sem þar fylgja en þau varða lög um lyfjafræðinga annars vegar, nr. 35/1978, þar sem lagt er til að sú grein sem vísað er til verði óbreytt frá gildandi lögum, og hins vegar varðandi lög nr. 75/1977, um iðjuþjálfun, varðandi menntastofnun iðjuþjálfunar.

Í umsögnum nokkurra fagfélaga heilbrigðisstarfsmanna var bent á að ákvæði laga um ýmsar heilbrigðisstéttir væru komin til ára sinna og full þörf á að endurskoða þau. Meðal annars væri nauðsynlegt að samræma ákvæði laganna með hliðsjón af evrópskum og alþjóðlegum viðmiðum um nám og starf ýmissa heilbrigðisstétta og breytingum sem hafa orðið á námi og starfi þeirra hérlendis á undanförnum árum. Nefndin fagnar því að þessi vinna sé þegar hafin og vill beina því til ráðuneytisins að ljúka þeirri vinnu hið fyrsta í nánu samráði við heilbrigðisstéttir.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Þuríður Backman var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Guðjón A. Kristjánsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Undir þetta nefndarálit rita hv. þm. Ásta Möller, Ágúst Ólafur Ágústsson, Árni Páll Árnason, Herdís Þórðardóttir, Valgerður Sverrisdóttir, Álfheiður Ingadóttir, Pétur H. Blöndal og Ellert B. Schram.