135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

flutningur á útgáfu starfsleyfa til landlæknis.

351. mál
[14:49]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Þar sem ég var fjarverandi við afgreiðslu þessa máls vil ég láta það koma fram að ég er samþykk afgreiðslu málsins og nefndaráliti heilbrigðisnefndar og eins þeirri vinnu sem farið hefur fram hvað varðar undirbúning málsins. Ég tel að þar hafi farið fram vönduð vinna. Hún er í raun og veru hálfnuð því að til viðbótar þessum breytingum sem gerðar eru hér á stjórnsýslu hvað varðar leyfisveitingar heilbrigðisstétta er verið að endurskoða lög um heilbrigðisstéttir.

Ástæðan fyrir því að ég tek hér til máls er sú að ég vil að hvetja alla þá sem koma að þeirri vinnu — og eins löggjafann þegar kemur að því að afgreiða frumvarpið — að fara vel yfir skilgreiningar á heilbrigðisstéttum og samanburð við heilbrigðisstéttir í Evrópu og á Norðurlöndunum. Jafnframt hvet ég til að þess sé gætt að horfa með opnum huga til annarra stétta en þeirra sem nú eru skilgreindar sem heilbrigðisstéttir því að það hefur ákveðið verndargildi fyrir heilbrigðisstéttina að vera flokkuð sem slík. Því er mikilvægt að vandað sé til verka og að skilgreina stétt eða stéttir sem heilbrigðisstéttir við afgreiðslu málsins.