135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

tæknifrjóvgun.

183. mál
[15:42]
Hlusta

Frsm. heilbrn. (Ásta Möller) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst hv. þingmaður ekki sýna nægilega sanngirni í orðum sínum gagnvart vinnu hv. heilbrigðisnefndar frá því í fyrravor. Nefndin fékk málið til umfjöllunar í byrjun febrúar og umsagnaraðilar fengu frest til 19. febrúar til að skila umsögnum. Nefndarálitið var lagt fram 13. mars og 14. mars kemur sú umsögn sem hv. þingmaður hefur gert að umfjöllunarefni frá vísindasiðanefnd.

Heilbrigðisnefnd hafði enga möguleika á að taka mið af athugasemdum vísindasiðanefndar vegna þess að hún fékk þær ekki í hendurnar fyrr en eftir að hafa afgreitt málið til 2. umr. Ef málið hefði farið til 2. umr. og fengið afgreiðslu hér hefði vonandi glöggur þingmaður eða ritari rekið augun í umsögn vísindasiðanefndar og nefndin tekið hana aftur til umræðu milli 2. og 3. umr.

Mér finnst hv. þingmaður heldur dómharður í orðum sínum gagnvart nefndinni. Nefndin vann þetta mál mjög vel og skoðaði með hliðsjón af þeim umsögnum og athugasemdum sem bárust um málið, m.a. gesta sem komu til nefndarinnar. Þar að auki voru ýmsir valinkunnir menn og konur í undirbúningsnefndinni sem undirbjó þetta mál, þar á meðal formaður vísindasiðanefndar sem ritaði undir bréfið sem hér er til umræðu. Hann var í þessari nefnd. Við munum eftir að einum gesta okkar sem kom til nefndarinnar fyrir jól kom á óvart, sem hafði jafnframt setið með hv. formanni (Forseti hringir.) í nefndinni, að heyra af athugasemdum hans.