135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

sértryggð skuldabréf.

196. mál
[16:18]
Hlusta

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S):

Herra forseti. Í september 2006 skipaði þáverandi hæstv. viðskiptaráðherra nefnd eða starfshóp sem tók til starfa 22. september og skilaði áliti fimm mánuðum síðar. Í álitinu eru sem sagt drögin að því frumvarpi sem nú er til umfjöllunar.

Í nefndinni sem var skipuð 22. september áttu sæti aðilar úr viðskiptalífinu og úr viðskiptaráðuneytinu. Ég ætla að fá að telja þá upp. Þarna voru Kjartan Gunnarsson skrifstofustjóri, formaður nefndarinnar, Agnar Hansson framkvæmdastjóri, Jón Finnbogason sjóðsstjóri, Ólafur Freyr Þorsteinsson hagfræðingur og Jóhann G. Jóhannsson sviðsstjóri. Varamenn voru skipaðir Haraldur Örn Ólafsson lögfræðingur, Jóna Björk Guðnadóttir héraðsdómslögmaður, Jón Þorsteinn Oddleifsson forstöðumaður og Guðrún Jónsdóttir viðskiptafræðingur. Ritari og starfsmaður starfshópsins var Jakob Hrafnsson deildarsérfræðingur og starfshópurinn naut aðstoðar Viðars Más Matthíassonar prófessors í lögum frá Háskóla Íslands.

Eins og ég sagði áðan skilar þessi starfshópur af sér innan við fimm mánuðum síðar og við höfum nú þetta frumvarp til umfjöllunar.

Mig langar að nefna að útgáfa sértryggðra skuldabréfa hefur aukist mjög á EES-svæðinu á undanförnum árum og um leið þörfin á að hafa lög um útgáfu þeirra. Það eru lög um sértryggð skuldabréf í gildi í flestum ríkjum Vestur- og Mið-Evrópu.

Þetta frumvarp felur í sér nokkra kafla. Ég ætla að lesa kaflaheitin. Fyrst er Almenn ákvæði, síðan Eignir í tryggingasafni o.fl., hvaða eignir mega vera í tryggingasafni, Skuldabréf með veði í fasteignum. Það er skilgreint hvernig það geti verið. Síðan er sérkafli um sveitarfélög. Þá eru jöfnunarreglur eða frekari reglur um mat á eignum í tryggingasafni og um meðferð eigna í tryggingasafni. Sjötti kafli fjallar um skrá eða skyldu til að halda skrá fyrir sértryggð skuldabréf og sömuleiðis um tryggingasafnið sem þar er að baki. Í sjöunda kafla er kveðið á um gjaldþrotaskipti á búi útgefanda, í áttunda kafla eftirlit sjálfstæðs skoðunarmanns sem á að skipa, og það er útgefandans að skipa slíkan skoðunarmann ef frumvarpið verður að lögum og með þeim breytingum sem nefndin leggur til. Í níunda kafla er kveðið á um eftirlit og heimildir Fjármálaeftirlitsins og svo að lokum í tíunda kafla er kveðið á um viðurlög.

Það er mikilvægt að skilgreina hvað séu sértryggð skuldabréf og það er líka ágætt að það komi fram að þau eru ekkert ný af nálinni. Þau hafa þekkst í gegnum, ja, mér liggur við að segja aldirnar, en alla vega eru þau vel þekkt á þessari öld. Þetta eru sem sagt skuldabréf eða skuldaviðurkenning sem nýtur sérstaks fullnusturéttar í tryggingasafni útgefanda og eru gefin út samkvæmt ákvæðum þessa frumvarps. Markmiðið er að skapa umhverfi þar sem viðskiptabankar, sparisjóðir og lánafyrirtæki geta hlotið leyfi Fjármálaeftirlitsins til að gefa út sértryggð skuldabréf sem hafi sérstakan tryggingar- og fullnusturétt í safni eigna sem tilheyra útgefanda.

Útgáfan þarf að samræmast reglum sem eru í frumvarpinu og fjárhagur útgefandans þarf að vera svo traustur að hagsmunum annarra kröfuhafa sé ekki stefnt í hættu með útgáfu skuldabréfanna. Að baki, líkt og formaður nefndi áðan, eru aðallega tvenns konar eignir, það eru sem sagt skuldabréf í tryggingasafni sem eru annars vegar veðskuldabréf og hins vegar skuldabréf sem gefin eru einkum þá út af ríkjum eða sveitarfélögum á því svæði sem lögin ná til. Svo eru svokallaðar staðgöngutryggingar sem er kannski orð sem sumir ekki þekkja en í 6. gr. laganna kveðið á um þessar staðgöngutryggingar. Þar kemur fram að tryggingasafnið sem er að baki þessum sértryggðu skuldabréfum megi innihalda eftirfarandi staðgöngutryggingar:

1. Innstæðu hjá fjármálafyrirtæki sem er laus til útborgunar, án fyrirvara.

2. Innstæðu hjá eða kröfu á aðildarríki eða seðlabanka í aðildarríki.

3. Kröfur á hendur öðrum lögaðilum sem að mati Fjármálaeftirlitsins fela ekki í sér meiri áhættu en þær sem tilgreindar eru í 1.–2. tölul. sem ég nefndi hér á undan.

Fjármálaeftirlitið getur samþykkt sem staðgöngutryggingar eftirfarandi kröfur og þetta er allt úr 6. gr. frumvarpsins:

1. Kröfur á hendur sveitarfélögum í aðildarríki.

2. Kröfur á hendur fjármálafyrirtækjum, aðrar en greinir í töluliðnum hérna fyrir ofan, enda sé gjalddagi þeirra innan árs frá útgáfu þeirra.

3. Kröfur á erlenda þróunarbanka sem Fjármálaeftirlitið tilgreinir í reglum sem það setur, sbr. 25. gr. þessa frumvarps.

4. Kröfur á aðra lögaðila, sem ekki fela í sér meiri áhættu en þær staðgöngutryggingar sem tilgreindar eru hér að ofan.

Það er líka þannig með staðgöngutryggingarnar að hámarkshlutdeild staðgöngutrygginga í tryggingasafni má vera 20% af heildarverðmæti þess þannig að að baki þessum sértryggðu skuldabréfum eru mjög þétt eignasöfn eða mjög öflugar tryggingar að baki þannig að þetta frumvarp gerir ráð fyrir því að viðkomandi sé vel tryggður, sá sem kaupir slík bréf.

Ég ætlaði aðeins að nefna að í umsögnum sem bárust nefndinni kom fram mjög víðtæk samstaða þeirra sem veittu umsagnir. Þetta voru tólf aðilar og af þessum tólf voru tíu sem efnislega höfðu engu við þetta að bæta og flestir fögnuðu þessu frumvarpi. Það er mjög tímanlega hér sett fram og einungis tveir aðilar gáfu efnislega einhver komment og nefndin hefur að mestu tekið tillit til þeirra. Aðallega var þetta Fjármálaeftirlitið sem kom með fimm athugasemdir og þær sneru að þeim breytingartillögum sem nefndin hefur nú lagt til.

Þetta er efnislega ekki flókið. Sumt af þessu er tæknilegt. Annað er efnislegt. En þetta er ekki mjög flókið vegna þess að þarna er lögð áhersla á að umsókn sé ekki komin til Fjármálaeftirlitsins fyrr en öll gögnin eru komin þangað. Þetta er sem sagt breyting á 4. greininni.

Síðan er talað um þennan sjálfstæða skoðunarmann í frumvarpinu eins og það var lagt fyrir. Þá var gert ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið mundi skipa þennan aðila, þennan sjálfstæða skoðunarmann. En Fjármálaeftirlitið lagði til og nefndin tók það til greina að útgefandi ætti að skipa þennan sjálfstæða skoðunarmann til eftirlits með útgáfu sértryggðra skuldabréfa.

Síðan var talað um helstu verkefni skoðunarmanns og í samræmi við þessar breytingar voru gerðar breytingar á 22. gr. frumvarpsins.

Í stóru myndinni held ég að þetta sé hið allra besta mál og tímabært einmitt hér á landi að setja þessi lög. Þetta einfaldar meðferð svona skuldabréfa og er í samræmi við það sem við þekkjum í Evrópulöndunum í kringum okkur. Ég mæli því eindregið með því að við samþykkjum þetta frumvarp með þeim breytingum sem nefndin leggur til.